Fara í efni

Viðhorf heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu 2019 - landshlutaskýrslur

Nánari upplýsingar
Titill Viðhorf heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu 2019 - landshlutaskýrslur
Lýsing

Í dag júlí Ferðamálastofa út sjö skýrslur með niðurstöðum könnunar á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu haustið 2019. Markmið könnunarinnar var að meta viðhorf Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamanna á tilteknum tíma bæði á landsvísu og eftir einstaka landshlutum. Auk þess var leitað eftir vísbendingum um það hvort landsmenn finni fyrir álagi vegna ferðamanna í heimabyggðinni.

Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála að gera könnun á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu haustið 2019. Í skýrslunum eru teknar saman niðurstöður könnunarinnar fyrir hvern landshlutanna sjö. Kannanir á viðhorfum heimamanna hafa verið gerðar af hálfu hins opinbera með reglubundnum hætti frá árinu 2014 en síðasta landskönnun var gerð árið 2017.

Helstu niðurstöður

Helstu niðurstöður voru þær að í öllum landshlutum litu heimamenn á ferðaþjónustu sem efnahagslega og samfélagslega mikilvæga atvinnugrein. Viðhorf voru um sumt einnig mismunandi eftir landshlutum.

  • Á Austurlandi voru umferð og umferðaröryggi ofarlega í hugum íbúa en áhyggjur af umferðarmálum voru enn og aftur meðal neikvæðustu áhrifa ferðaþjónustunnar að mati íbúa.
  • Íbúar á Suðurnesjum voru sá hópur landsmanna sem var hvað ánægðastur með ástand margra innviða, þar á meðal ástand vegakerfis, ástand í skiltamálum og ástand bílastæða.
  • Á Suðurlandi styrktust heimamenn í viðhorfum sínum um að ferðaþjónustan sé mikilvæg atvinnugrein sem efli efnahag heimamanna svo um munar.
  • Að mati Suðurnesjamanna snéru neikvæðustu hliðar ferðaþjónustunnar að aukinni umferð almennt, umgengni ferðamanna og átroðningi á náttúru.
  • Íbúar á Vesturlandi virtust finna síður en aðrir landsmenn fyrir því að ferðamenn efli verslun á svæðinu.
  • Almenn bjartsýni og ánægja með stöðu mála í ferðaþjónustunni var áberandi í niðurstöðum á Norðurlandi árið 2017 og var það staðfest í könnuninni 2019. Norðlendingar sögðust áfram njóta góðs af öflugri verslun og þjónustu á svæðinu og fundu ekki fyrir því að ferðamenn takmarki aðgengi þeirra að þjónustu eða möguleika íbúa til að festa rætur í heimabyggðinni.
  • Á Vestfjörðum komu fram vísbendingar um að heimamenn fyndu fyrir álagi. Frá síðustu könnun hafði óvissa aukist meðal íbúa um það hvort hægt væri að taka á móti fleiri ferðamönnum miðað við núverandi aðstæður og komu þessar áhyggjur einnig fram með vísan til skemmtiferðaskipa og fjölda ferðamanna.
  • Fjöldi ferðamanna í höfuðborginni virtist ekki íþyngja höfuðborgarbúum jafn mikið og fram kom í könnuninni 2017. Engu að síður voru vísbendingar enn til staðar um staðbundið eða tímabundið álag vegna fjölda.

Skýrslurnar hverja um sig má nálgast hér fyrir neðan:

Heildarskýrsla og frekari greiningar

Könnunin er þáttur í opinberri gagnasöfnun og greiningu á félagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélag heimamanna en kannanir á viðhorfum heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku hafa farið fram með reglubundnum hætti frá árinu 2014. Gögnum var safnað í símakönnun meðal 6.200 manna lagskipts úrtaks af landinu öllu og fengust 2.600 svör. Ferðamálastofa mun gefa út heildarskýrslu með niðurstöðum á landsvísu ásamt frekari greiningum gagna verður gefin út síðar á árinu.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála sá um framkvæmd og verkefnisstjórn en gagnaöflun var í höndum Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri.

Höfundar
Nafn Eyrún Jenný Bjarnadóttir
Flokkun
Flokkur Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu
Útgáfuár 2020
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð viðhorf, þolmörk, rannsóknamiðstöð ferðamála, uppbygging, landkynning, fjöldi, fjöldi ferðamanna, stefnumótun, stefnumörkun, ímynd