Fara í efni

Hvað finnst Íslendingum um ferðamenn og ferðaþjónustu?

Málþing á vegum Ferðamálastofu þar sem meðal annars verða kynntar nýjar niðurstöður kannana um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu. Markmið með verkefninu var meðal annars að meta viðhorf Íslendinga bæði á landsvísu og eftir einstaka landshlutum. Auk þess var leitað eftir vísbendingum um það hvort landsmenn finni fyrir álagi vegna ferðamanna í heimabyggðinni.

Haustið 2023 fól Ferðamálastofa Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) umsjón með rannsókn á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu. Um er að ræða framhald rannsókna sem voru framkvæmdar á landsvísu 2014, 2017 og 2019 auk stuttra kannana 2021-2022 sem voru gerðar fyrir Jafnvægisás ferðamála. Þess á milli hafa verið gerðar rannsóknir á nokkrumþéttbýlisstöðum. Rannsóknin, sem er skilgreind í rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2023- 2025, er liður í vöktun á viðhorfum heimamanna og hluti af reglubundinni söfnun hins opinbera á samanburðarhæfum gögnum og greiningu á viðhorfum Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamennsku. Jafnframt tekur rannsóknin mið af þeim opinberu markmiðum að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið og auki lífsgæði. Verkefnið safnar gögnum fyrir mælikvarða Jafnvægisáss ferðamála og fyrir markmið stjórnvalda um að landsmenn hafi jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar, auk þess sem gögnin nýtast í alþjóðlegri tölfræði, svo sem við sjálfbærnivísa aðildarlanda Ferðamálaráðs Evrópu (ETC).

Frekari dagskrá er í vinnslu en endilega takið tímann frá.