23,6% fækkun á milli ára í maí
Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 126 þúsund í maímánuði eða um 39 þúsund færri en í maí árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkun milli ára nemur 23,6%.
Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum, í janúar fækkaði brottförum um 5,8%, í febrúar um 6,9%, í mars um 1,7% og í apríl um 18,5%.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða fjórðungur brottfara og fækkaði þeim um 38,7% milli ára. Brottfarir í maí í ár eru álíka margar og í maí árið 2016.
Frá áramótum hafa 705 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 11,2% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.
Fjölmennustu þjóðernin
Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í maí tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem fyrr segir. Þjóðverjar voru í öðru sæti hvað fjölda varðar eða níu þúsund talsins og fækkaði þeim um 23,8% milli ára og Bretar í þriðja sæti eða tæplega níu þúsund og fækkaði þeim um 16%.
Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (6,5% af heild), Kanadamanna (4,6% af heild), Frakka (4,6% af heild), Kínverja (3,4% af heild), Norðmanna (3,3% af heild), Svía (3,3% af heild) og Dana (3,2% af heild).
Ferðir Íslendinga utan
Um 57 þúsund Íslendingar fóru utan í maí í ár eða 9,3% færri en í maí 2018. Frá áramótum hafa 185 þúsund Íslendingar farið utan eða 1,8% færri en á sama tímabili í fyrra.