40% fjölgun ferðamanna í janúar
Um 46 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 13.400 fleiri en í janúar á síðasta ári. Um er að ræða 40,1% fjölgun ferðamanna í janúar milli ára.
Helmingur frá Bretlandi og Bandaríkjunum
Bretar voru langfjölmennastir eða 35,5% af heildarfjölda en í öðru sæti voru Bandaríkjamenn, 14,5% af heild. Þar á eftir komu
Þjóðverjar (5,0%), Norðmenn (4,2%), Frakkar (4,2%), Danir (4,1%), Japanir (3,8%), Svíar (3,8%), Kínverjar (2,9%) og Kanadamenn (2,2%). Samtals voru þessar
tíu þjóðir áttatíu prósent ferðamanna í janúar.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum langmest milli ára en 6.545 fleiri Bretar komu í janúar í ár en í fyrra.
Bandaríkjamenn voru 1.716 fleiri, Kanadamenn 616 fleiri og Frakkar 600 fleiri.
Þróun á tímabilinu 2003-2014
Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir þrettán árum hefur verið stöðug fjölgun ferðamanna til landsins. Janúarmánuður er þar enginn eftirbátur en árleg aukning í janúar hefur verið að jafnaði 13,7% frá árinu 2003.
Mismunandi aukning eftir markaðssvæðum
Mismikil fjölgun eða fækkun hefur átt sér stað, bæði milli ára og eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut eins og sjá má af töflunni hér að neðan. Ferðamönnum hefur fjölgað hlutfallslega meira í janúar síðastliðin fjögur ár en árin á undan. Mest áberandi er aukning Breta sem eru nú orðnir ríflega þriðjungur ferðamanna í janúar. Norður Ameríkönum hefur ennfremur fjölgað umtalsvert síðastliðin fjögur ár. Sama má segja um ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu og öðrum markaðssvæðum þó svo greina megi jafnari aukningu þessara markaðssvæða þegar til lengri tíma er litið. Það vekur hins vegar athygli að Norðurlandabúum, sem voru framan af stærsta markaðssvæðið í janúar, hefur ekki fjölgað jafn ört og gestum frá öðrum markaðssvæðum.
Bretar fimmfaldast
Það er ljóst að fjölgun ferðamanna í janúar hefur verið umtalsverð á síðastliðnum tólf árum. Þannig hafa ferðamenn frá Bretlandi meira en fimmfaldast frá 2003, ferðamenn sem flokkast undir önnur markaðssvæði meira en fjórfaldast, ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu ríflega þrefaldast, ferðamenn frá N-Ameríku þrefaldast og ferðamenn frá Norðurlöndunum tvöfaldast.
Ferðir Íslendinga utan
Um 25.500 Íslendingar fóru utan í janúar eða um 2.300 fleiri en í fyrra. Um er að ræða 9,9% fleiri brottfarir en í janúar 2013.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Nánari upplýsingar má sjá undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.