Fara í efni

90% Íslendinga ferðuðust innanlands í fyrra

Innanlandskönnun jan 2010
Innanlandskönnun jan 2010

Ferðaárið 2009 var með líflegasta móti hjá landsmönnum samkvæmt nýrri könnun Ferðamálastofu um ferðalög Íslendinga innanlands. Í könnuninni, sem framkvæmd var í janúar síðstliðnum af MMR, kemur fram að níu Íslendingar af hverjum tíu hafi ferðast innanlands á árinu 2009 og er um að ræða nokkuð hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt.

Tveir af hverjum þremur (67%) fóru í þrjár eða fleiri ferðir innanlands og þrír af hverjum fjórum (74%) gistu sjö nætur eða lengur en á heildina litið gistu landsmenn að jafnaði 14,3 nætur á ferðalögum innanlands árið 2009.

Samdráttur í utanferðum
Samkvæmt könnuninni ferðuðust tveir af hverjum fimm bæði innanlands og utan og fjögur prósent eingöngu utanlands. Átta prósent ferðuðust hins vegar ekki neitt. Þannig ferðaðist innan við helmingur landsmanna til útlanda sem gefur til kynna verulegan samdrátt í utanferðum landsmanna.

Hvenær var ferðast innanlands?
Flestir ferðuðust í júlí (75%) og ágúst (66%) en fjölmargir ferðuðust hins vegar í öðrum mánuðum, ríflega helmingur (56%) í júní, fjórðungur í maí og september og fimmtungur í apríl og október.

Fjölskyldan ræður ferðinni
Fjölmargir þættir höfðu áhrif á ákvarðanatöku landsmanna um ferðalög á árinu. Fjölskylda og vinir höfðu einna mest áhrif (62%), en aðrir þættir sem höfðu umtalsverð áhrif voru sérstakur viðburður (29%), tengsl eða áhugi á stað eða svæði (22%), aðgangur að sumarbústað í einkaeigu (20%) eða útivist almennt (20%).

Tjaldsvæðin vinsælust
Sú gistiaðstaða sem var nýtt í hvað mestum mæli eða af ríflega helmingi (52%) landsmanna var gisting í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl en auk þess gistu fjölmargir eða tæpur helmingur (48%) hjá vinum og ættingjum. Norðurlandið og Suðurlandið eru þeir landshlutar sem flestir gistu í eða þrír af hverjum fimm landsmönnum.

Fyrir hvers konar afþreyingu greiða landsmenn?
Af þeirri afþreyingu sem greiða þarf fyrir nýttu flestir sér sund eða jarðböð (66%) en auk hennar borguðu fjölmargir sig inn á söfn og sýningar (33%), fyrir veiði (19%) og leikhús eða tónleika (18%).
Náttúrutengd afþreying var notuð í minna mæli en innan við fimm prósent fóru í einhverja af eftirtöldumm ferðum; skoðunarferð með leiðsögumanni, gönguferð eða fjallgöngu með leiðsögumanni, hestaferð, flúðasiglingu eða kjakferð, hvalaskoðun, hjólreiðar og vélsleða- eða snjósleðaferð.


Norðurland mest spennandi til vetrarferða
Þeir sem eru að huga að ferðalögum á fyrri hluta ársins 2010 (feb-maí) ætla flestir að ferðast innanlands og í því sambandi að fara annað hvort í sumarbústaðaferð (33%) eða heimsækja vini og ættingja (30%). Þriðjungur hefur hins vegar engin áform um ferðalög á fyrri hluta ársins. Þegar fólk var spurt um hvaða landssvæði því fyndist mest spennandi til vetrarferða nefndu langflestir (45%) Norðurland.

Það sem hins vegar stendur í vegi fyrir að landsmenn ferðist meira innanlands að vetrarlagi er að þeim finnst það of dýrt, þeir geta það ekki vinnunnar vegna eða af því þeir hafa ekki tíma. Veðrið letur landsmenn ennfremur í nokkrum mæli til ferðalaga, auk þess sem þeir telja sig ekki hafa efni á því að ferðast. 

Um könnunina
Könnunin var unnin sem net- og símakönnun 14.-19. janúar. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna úrtaks úr þjóðskrá og var svarhlutfall 66,1%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 159 manna úrtaki og var svarhlutfall 60,4%. Framkvæmd og úrvinnsla voru í höndum MMR.

Könnunin í heild: Ferðalög Íslendinga (PDF)