Af vettvangi Félags ferðamálafulltrúa
Nýlega var haldinn ársfundur Félags ferðamálafulltrúa á Íslandi, FFÍ. Félagsmenn eru ríflega 20 talsins en aðild að FFÍ geta átt ferðamálafulltrúar eða þeir aðilar sem vinna að ferðamálum á vegum eða í tengslum við sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög, þjóðgarða og samtök er vinna að uppbyggingu ferðamála sem og forstöðumenn upplýsingamiðstöðva.
Alþjóðlegt samstarf
FFÍ er aðili að EUTO European Union of Tourist Officers, sem eru Evrópusamtök, eins konar regnhlífarsamtök aðildarfélaga með um 1.800 félaga frá ýmsum löndum. Skilgreiningin á Tourist Officer er töluvert víðari en íslenska heitið ferðamálafulltrúi, að sögn Ásborgar Arnþórsdóttur, formanns FFÍ. "Um er að ræða fólk sem starfar að ferðamálum á breiðum grundvelli, flest í opinbera geiranum, hjá ferðamálaráðum eða svæðisbundnum yfirvöldum ferðamála. Meginmarkmið EUTO er að mynda tengslanet og miðla faglegri þekkingu, líkt og FFÍ, en jafnframt er hlutverk EUTO að hafa áhrif á ákvarðanatöku og umræðu um ferðamál á Evrópuvettvangi. Hvert aðildarland á einn fulltrúa í stjórn EUTO og er það formaður FFÍ fyrir Íslands hönd segir Ásborg.
Ráðstefna EUTO haldin hér á landi
Helstu verkefni FFÍ á komandi starfsári eru að sögn Ásborgar tvö. Annars vegar árleg ráðstefna EUTO sem haldin verður í Reykjavík 1.-5.september 2004, með meginþemað "Adventure and Nature Tourism". Hins vegar er það Evrópuverkefni, en félag ferðamálafulltrúa á Íslandi og fleiri aðildarlönd hafa unnið saman styrkumsókn í umfangsmikið verkefni á sviði starfsþjálfunar og endurmenntunar, VoTAP Vocational Training and Advisory Partnership.
Gott samstarf
Ásborg segir FFÍ hafa átt mjög gott samstarf við Byggðastofnun, Samgönguráðuneyti og Ferðamálaráð og á vefsíðunum Byggðastofnunar og hér á vefnum má finna upplýsingar um félagið. Stjórn félagsins skipa, Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, formaður; Auróra Friðriksdóttir, ferðamálafulltrúi Vestmannaeyja, gjaldkeri og Haukur Suska-Garðarsson, atvinnu- og ferðamálafulltrúi A.-Húnavatnssýslu, ritari.