Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum
Alls bárust Ferðamálaráði 146 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári en auglýst var eftir umsóknum um styrki um miðjan desember síðastliðinn. Umsóknirnar voru afgreiddar á fundi Ferðamálaráðs í dag og hlutu 53 verkefni styrk að þessu sinni. Til úthlutunar voru samtals um 40 milljónir króna sem skiptist í þrjá flokka en sótt var um samtals 236.482.000 krónur.
Minni verkefni
Í flokknum minni verkefni gátu styrkir að hámarki numið 500 þúsund krónum og eingöngu til efniskaupa. Að þessu sinni var tekið fram að áherslan væri á uppbyggingu gönguleiða. Alls bárust 89 umsóknir en 39 aðilar fengu styrk, samtals að upphæð 11.150.000. Af því leiðir að mörgum verðugum verkefnum varð að hafna að þessu sinni. Þetta er sama reynsla og fengist hefur á undangengnum árum þar sem fjárhæð umsókna hefur verið margföld sú upphæð sem verið hefur til ráðstöfunar.
Stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum
Í flokkinn stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum bárust 27 umsóknir og hlutu 8 verkefni styrk, samtals að upphæð 19.200.000 krónur. Hér er um það að ræða að umsækjendur stýra framkvæmdum sjálfir og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur.
Uppbygging á nýjum svæðum
Í þriðja flokkinn, uppbygging á nýjum svæðum, bárust 30 umsóknir. Úthlutað var 9.750.000 krónum sem skiptast á 6 verkefni.
Framkvæmdir á um 300 stöðum á landinu
Þess má geta að Ferðamálaráð hefur víða komið að málum þegar umhverfismál eru annars vegar. Þannig hafa á síðustu 10 árum þeir fjármunir sem Ferðamálaráð hefur varið til umhverfismála nýst til framkvæmda á rétt um 300 stöðum um allt land, bæði í formi styrkja og þar sem Ferðamálaráð hefur komið beint að framkvæmdum.
Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, segir umsóknarferlið hafa gengið vel fyrir sig í ár og greinilegt að nýtt verklag við útdeilingu þessara fjármuna, sem nú var unnið eftir í annað sinn, sé að skila tilætluðum árangri. "Almennt séð eru umsóknir betur unnar en áður. Hins vegar er ljóst að mörg verðug verkefni verða að bíða að þessu sinni og vissulega er alltaf erfitt að geta ekki orðið við góðum umsóknum," segir Valur.
Meðfylgjandi er listi yfir þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni.