Loksins tókst afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu 2023
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2023 hlaut Reykjanes Jarðvangur fyrir uppbyggingu við Brimketil skammt vestan Grindavíkur. Erfiðlega hefur gengið að afhenda verðlaunin með formlegum hætti af skiljanlegum ástæðum og hefur afhendingu þrívegis verið frestað vegna jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesi. Í dag tókst loks að ljúka verkinu. Daníel Einarsson frá Reykjanes Jarðvangur og Þuríður H. Aradóttir Braun frá Visit Reykjanes tóku við verðlaunagripnum með viðhöfn við Brimketil. Eins og sjá má á myndum var nokkuð blautt og hráslagalegt veður við athöfnina og því var kærkomið að þiggja heitt kaffi og bakkelsi á skrifstofu Visit Reykjanes að henni lokinni.
Framkvæmdir við Brimketil lögðu áherslu á að auka öryggi ferðamanna á staðnum og bæta aðgengi að þessari einstöku náttúruperlu. Til þessara framkvæmda fékkst fjármagn frá Framkvæmdasjóði ferðamanna enda ríma þær einkar vel við áherslur sjóðsins. Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er verðlaunagripurinn „Sjónarhóll“ hannaður af Védísi Pálsdóttur og Jóni Helga Hólmgeirssyni.
Horft niður í Brimketil.
Á mynd frá hægri: Þuríður H. Aradóttir Braun, Daníel Einarsson, Eyþór Sæmundsson, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, Arnar Már Ólafsson og Berglind Kristinsdóttir.