Almannarétturinn á tímum vaxtar ferðamennsku: Sjónarhorn landeigenda
Síðastliðinn föstudag veittu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi. Julia Kienzler hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Ritgerð Juliu nefnist „Almannarétturinn á tímum vaxtar ferðamennsku: Sjónarhorn landeigenda“ (e. Public Right of Access in Times of Tourism Boom: Landowners‘ Perspectives). Leiðbeinendur Juliu voru Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor og Edda Ruth Hlín Waage dósent við Háskóla Íslands.
Þörf á skýrari lagaramma
Viðfangsefni ritgerðarinnar voru viðhorf landeigenda á Íslandi til vaxandi ferðamennsku, nauðsynlegrar uppbyggingar vinsælla ferðamannastaða og áhrifa þessa á almannaréttinn. Tekin voru viðtöl við landeigendur á vinsælum ferðamannastöðum sem gáfu innsýn í þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir við stýringu á fjölda ferðamanna og uppbyggingu kostnaðarsamra innviða til að vernda sameiginlega auðlind. Viðtölin sýndu fram á nauðsynlega aðkomu hins opinbera til að styðja við uppbyggingu innviða einkum til þeirra landeigenda sem hafa engan efnahagslegan ábata af komu ferðamanna. Höfundur ályktar að þörf sé á skýrari lagaramma um ferðamennsku á einkalandi og endurskoðun á almannaréttinum hér á landi með hliðsjón af umfangi ferðaþjónustunnar.
Skoða má ritgerðina á www.skemman.is