Árið 2017 tileinkað sjálfbærri ferðaþjónustu og efnahagslegri þróun
Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið 2017 sjálfbærri ferðaþjónustu og efnahagslegri þróun. Vert er að hvetja alla sem tengjast ferðaþjónustu til að kynna sér framtakið og taka þátt eftir föngum.
Dagskrá ársins í vinnslu
Til að minnast þessa mun Ferðamálastofa á árinu leggja sitt af mörkum með ýmsum hætti og verður það betur kynnt innan tíðar. Eins og þegar hefur komið fram ber hæst heimsókn Talib Rafai, aðalritara ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO), í tengslum við Ferðamálaþing í byrjun október. Þar mun hann halda erindi og einnig nýtist ferðin til að kynna fyrir honum með milliliðalausum hætti ferðaþjónustu á Íslandi.
Hvernig getur ferðaþjónustan lagt lið
Á ensku nefnist framtakið „International Year of Sustainable Tourism for Development“. Meginmarkmið þess er að draga fram og leggja áherslu á með hvaða hætti ferðaþjónustan getur lagt lóð sitt á vogarskálina til að byggja upp betri heim, m.a. með vísan í áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem kennd er við árið 2030.
Samkvæmt tölum UNWTO má rekja allt að 7% af útflutningi vöru og þjónustu á heimvísu til ferðaþjónustu, eitt af hverjum ellefu störfum og 10% af þjóðarframleiðslu heimsins. Því er ljóst að greinin sem slík hefur möguleika á að hafa veruleg áhrif á þróun mála. Almennt séð er framtakinu ætlað að styðja við breytingar í átt að aukinni sjálfbærni ferðaþjónustunnar hvað varðar stefnumótun stjórnvalda, starfshætti fyrirtækja og ferðahegðun neytenda.
Nánar tiltekið verður horft til hlutverks ferðaþjónustu á eftirfarandi fimm sviðum:
- Hagvöxtur byggður á sjálfbærni
- Samfélagsleg þátttaka, atvinnusköpun og minni fátækt
- Nýting auðlinda, verndun umhverfis og loftslagsbreytingar
- Menningarleg verðmæti, fjölbreytni og arfleifð
- Gagnkvæmur skilningur, friður og öryggi
Vefsíða átaksins
Vefsíða átaksins er á slóðinni www.tourism4development2017.org og mun hún gegna lykilhlutverki við að kynna þá viðburði og annað sem verður á dagskránni hjá þátttakendum um allan heim. Formlega verður átakinu ýtt úr vör á FITUR ferðakaupstefnunni á Spáni 18. janúar næstkomandi.
Í myndbandinu hér að neðan er átakið kynnt frekar.