Fara í efni

Auglýst eftir samstarfsaðilum að markaðs- og kynningarmálum í ferðaþjónustu

Í frumvarpi til fjárlaga er lagt til að meiri fjármunum verði varið af hálfu stjórnvalda til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu árið 2004 en fyrr hefur verið gert á einu ári. Samgönguráðherra hefur falið skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands að hafa umsjón með verkefninu og samningagerð við samstarfsaðila.

Tilgangurinn er að gera markaðs- og kynningarmálin enn umfangsmeiri og ákveðið hefur verið að bjóða aðilum að ganga til samstarfs við Ferðamálaráð í markaðs- og kynningarmálum, innanlands og erlendis, á árinu. Hér með er auglýst eftir samstarfsaðilum á fjórum erlendum markaðssvæðum með fyrirvara um samþykki fjárlaga. Framlag samstarfsaðila verði a.m.k. jafnt framlagi Ferðamálaráðs til umræddra verkefna og þeir sem eru reiðubúnir að leggja fram meira gangi að öðru jöfnu fyrir, þegar samstarfsaðilar verða valdir.

Alls er um að ræða kr. 175 milljónir, sem er sá hluti markaðsfjármuna næsta árs sem verður varið til samstarfsverkefna á erlendri grundu, og ákveðið hefur verið að skiptist á eftirfarandi hátt:

1. N.- Ameríka
Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni.
Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 8 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón.

2. Bretlandseyjar
Til ráðstöfunar eu annars vegar kr. 30 milljónir þar, sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni. Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 8 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón.

3. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland
Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni.
Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 10 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón.

4. Meginland Evrópu
Til ráðstöfunar eru annars vegar kr. 30 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila verði kr. 15 milljónir í verkefni.
Hins vegar eru til ráðstöfunar kr. 12 milljónir, þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er kr. 1 milljón.

Annað samstarf óháð markaðssvæðum
Þá er auglýst eftir samstarfsaðilum til verkefna vegna ákveðinna markhópa, t.d. vegna hvalaskoðunar, vegna kynningar ákveðinnar vöru eða viðburðar, óháð markaðssvæðum. Til ráðstöfunar eru 17 milljónir kr. þar sem lágmarksframlag hvers samstarfsaðila er 2 milljónir kr. í verkefni.

Hverjir geta sótt um?
Þegar rætt er um samstarfsaðila getur það átt við fyrirtæki, sveitarfélög, einstaklinga eða samstarfshópa þeirra, um ákveðin markaðs- og/eða kynningarverkefni.
Með umsóknum skal fylgja nákvæm útfærsla á viðkomandi kynningu og fjárhags-áætlun. Ekki verður um að ræða styrki vegna verkefna, heldur fjármagn til sameiginlegra verkefna með Ferðamálaráði Íslands. Greiðsla Ferðamálaráðs mun fara fram að lokinni umræddri kynningu, eða í samræmi við greiðslur vegna hennar, og þá gegn framvísun reikninga. Umrædd verkefni skulu unnin á tímabilinu 1. mars 2004 til 28. febrúar 2005.

Við afgreiðslu umsókna verður tekið tillit til eftirfarandi þátta:

  • Um verði að ræða almenn kynningar-/markaðsverkefni, sem hvetji neytendur til Íslandsferða. 
  • Sérstaklega verður litið til verkefna sem styrkja ferðaþjónustu alls Íslands á heilsársgrunni. 
  • Litið verður til útbreiðslu þeirra miðla sem áætlað er að nýta í umræddri kynningu.

Umsóknareyðublöð
Sérstök umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofum ráðsins.  Haldnir verða kynningarfundir til frekari upplýsinga í byrjun janúar, sem verða auglýstir sérstaklega. Auglýst verður eftir samstarfsaðilum vegna innlendrar kynningar síðar.

Umsóknarfrestur
Þeir sem áhuga hafa á samstarfi við Ferðamálaráð samkvæmt þessari auglýsingu, sendi umsóknir sínar til skrifstofu ráðsins að Lækjargötu 3, 101 Reykjavík, fyrir 26. janúar 2004.