Fara í efni

Betri þjónusta og aukið öryggi með stafrænu pósthólfi

Í samræmi við lög nr. 105/2021 sbr. reglugerð 180/2024 birtir Ferðamálastofa ákvarðanir, tilkynningar og önnur gögn sem verða til við meðferð máls í stafrænu pósthólfi á Ísland.is. Markmiðið er að bæta þjónustu og auka öryggi við sendingu gagna.

 

Á við um sértækar ákvarðanir

Ákvarðanir og afgreiðslur Ferðamálastofu eru birtar í stafrænu pósthólfi málsaðila og á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila. Birting í stafrænu pósthólfi á ekki við um almennar tilkynningar heldur er bundin við sértækar ákvarðanir sem varða sértæka hagsmuni aðila, þar með talið ákvarðanir um veitingu og niðurfellingu leyfa, fjárhæðir trygginga vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, iðgjalds og stofngjalds í Ferðatryggingasjóð, afgreiðslu umsókna í Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða, afgreiðslu umsókna um aðila að Vakanum sem og aðrar ákvarðanir Ferðamálastofu.

 

Ákvarðanir lögaðila

Ákvarðanir er varða lögaðila (fyrirtæki og félög) eru birtar í pósthólfi lögaðila og fær prókúruhafi tilkynningu um nýtt skjal á það netfang sem hann hefur skráð hjá island.is. Forsvarsmenn lögaðila eru beðnir um að ganga úr skugga um að skráning hjá island.is sé rétt. Prókúruhafar geta veitt öðrum aðgang til að skoða pósthólf lögaðila í gegnum aðgangsstýringu á mínum síðum lögaðila.

 

Hægt er að óska eftir pappír

Hægt er að óska eftir að fá öll bréf send á pappírsformi á lögheimili samhliða birtingu í stafrænu pósthólfi, er það gert island.is, undir Mínum stillingum eða á skrifstofu sýslumanns gegn framvísun skilríkja. Tekið er gjald fyrir þessa þjónustu. Réttaráhrif birtingar miðast við tíma birtingar í stafrænu pósthólfi.

 

Nánari upplýsingar um stafrænt pósthólf má finna hér: Stafrænt pósthólf | Ísland.is