Bókunarstaða hótela á höfuðborgarsvæðinu í haust tekur kipp
12.05.2021
Ferðamálastofa hefur nú í nokkurn tíma fylgst náið með bókunarstöðu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu til að meta komandi mánuði í ferðaþjónustu.
Þróunin hefur verið í þá átt frá mars 2020, að því nær sem dregur bókaðri gistinótt því meira er afbókað. Sést það glögglega á muni á bókunarstöðu fyrir maí og júní, annars vegar í upphafi apríl og hins vegar núna í upphafi maí. Draga má tvær ályktanir af því hvað getur mögulega útskýrt þessa tilhneigingu:
- Einstaklingar veðja á að Ísland opni og bóka herbergi sem hægt er að afbóka með fullri endurgreiðslu
- Þetta séu herbergi sem ferðaskrifstofur hafa tekið frá en ná ekki að selja og framboðið kemur inn aftur
Athygli vekur að bókunarstaða í október og nóvember tekur kipp og eykst um 22 og 12 prósentustig frá síðustu mælingu. Ef bólusetning heldur áfram með sama dampi og undanfarnar vikur má gera ráð fyrir að frekara líf færist í seinnipart sumars og haustmánuði fyrir íslenska ferðaþjónustu.