Breyting á reglugerð um Ferðatryggingasjóð nr. 812/2021
Menningar og viðskiptaráðuneytið hefur gert breytingar á reglugerð um Ferðatryggingasjóð nr. 812/2021 sbr. reglugerð nr. 796/2024 vegna árlegs endurmats tryggingafjárhæða. Breytingarnar eru afrakstur starfshóps um endurskoðun á útreikningi tryggingafjárhæða seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar sem skipaður var af ráðherra þann 13. maí 2024. Í hópnum áttu sæti fulltrúar Ferðamálastofu, Samtaka ferðaþjónustunnar og menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Formaður hópsins var skipaður Bjarni Guðmundsson tryggingasérfræðingur.
Skerpt á ákvæðum reglugerðarinnar
Markmið með vinnu hópsins var að skýra ákvæði 7. gr. og 10. gr. reglugerðarinnar sem kveða á um mat á fjárhæð trygginga og beitingu hækkunarheimilda, og lúta helstu breytingar að þeim atriðum.
Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar ber Ferðamálastofu að setja sér álagsviðmið vegna beitingar hækkunarheimildar á grundvelli fjárhagsstöðu seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar. Viðmiðin skulu gefin út árlega og undirrituð af ráðherra. Álagsviðmið vegna ársins 2024 eru afrakstur vinnu áður nefnds starfshóps og byggja þau m.a. á niðurstöðum vinnu Credit Info fyrir starfshópinn. Nánari upplýsingar um álagsviðmið ársins 2024 má nálgast á vef Ferðamálastofu.
Breytt reglugerð tók gildi 8. júlí sl. við birtingu í stjórnartíðindum og byggir endurmat trygginga 2024 og afleiddra gjalda, þ.e. iðgjalda í Ferðatryggingasjóð og eftir atvikum stofngjalda, á henni.