13,6% fjölgun erlendra farþega í september
Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í september síðastliðnum voru tæplega 232 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 28 þúsund fleiri en í september á síðasta ári.
Fjölgunin nam 13,6% á milli ára sem er álíka og í maí og mun meiri en mælst hefur aðra mánuði ársins.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í september eða ríflega þriðjungur og fjölgaði þeim um 43,7% milli ára.
Af 32 þjóðernum sem talin eru sérstaklega var fjölgun frá 19 löndum. Að Bandaríkjamönnum frátöldum munar mest um Spánverja, Kínverja og Pólverja. Fækkun var frá nokkrum lykilmörkuðum á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland.
Frá áramótum hefur um 1,8 milljón erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.
Fjölgun í september*
Farþegum í september fjölgar nú um 13,6% milli ára sem er álíka og í fyrra en mun minni fjölgun en árin þar á undan. Fjölgunin í september var að jafnaði 24% milli ára síðastliðin fimm ár mest frá 2015 til 2016 eða 33,9%. Þegar litið er til annarra mánaða ársins þá er um að ræða álíka mikla fjölgun í september og mældist í maímánuði (13,2%) en mun meiri en aðra mánuði ársins.
Bandaríkjamenn ríflega þriðjungur
Á grafinu hér til hliðar má sjá tíu fjölmennustu þjóðernin í september. Brottfarir Bandaríkjamanna voru 35,5% af heild en þeir voru 43,7% fleiri í ár en á síðasta ári.
Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 7,0% af heild í ár en þeir voru 7,5% færri en árið 2017. Þar á eftir komu Bretar eða 5,8% af heild en þeim fækkaði um 14,3% milli ára. Samanlagt voru 10 fjölmennustu þjóðernin 72,4% af heildarfjölda.
Samsetning farþega hefur breyst verulega síðustu ár, einkum vegna fjölgunar Bandaríkjamanna. Þannig hefur þeim fjölgað úr 15 þúsundi árið 2014 í um 82 þúsund í ár, sem er nærri sexföldun.
Dregið hefur úr fjölgun
Sé tímabilið frá áramótum skoðað (janúar-september) í samanburði við sama tímabil nokkur ár aftur í tímann má glögglega sjá að dregið hefur verulega úr þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð fjögur ár aftur í tímann, sem sýnir þetta vel. Frá áramótum hefur verið 5,5% fjölgun en á sama tíma fyrir ári var hún 28,1%. Næstu tvö tímabil þar á undan hafði fjölgun á milli ára verið á bilinu 28-34% milli ára.
17% fjölgun frá stærsta markaðssvæðinu
Sé breytingin skoðuð nánar eftir mörkuðum á tímabilinu janúar til september má sjá að dregið hefur úr fjölgun frá öllum mörkuðum í samanburði við fyrri ár. Norðurlandabúum fækkar um 9% frá því í fyrra, Bretum um 8% og Mið- og Suður-Evrópubúum um 5%. N-Ameríkönum fjölgar hins vegar um 17% frá því í fyrra og þjóðernum sem flokkast undir "annað" um 13% en þar undir eru meðal annars Austur-Evrópuþjóðir, Asíubúar, Ástralir og Nýsjálendingar. Nánari skiptingu þess hóps má sjá á skífuritinu hér neðar á síðunni.
Breytt samsetning
Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara er skoðuð á tímabilinu janúar til september síðastliðin fimm ár má sjá að samsetningin hefur breyst nokkuð eins og sjá má af grafinu hér til hliðar. Hlutdeild Norður-Ameríkana hefur aukist ár frá ári en hún mældist 35,5% árið 2018. Norðurlandabúar hafa verið í kringum 7-9% af heild síðastliðin tvö ár en hefur minnkað með árunum. Sama má segja um Breta og Mið- og Suður-Evrópubúa en hlutdeild þeirra hefur jafnframt minnkað með árunum. Hlutdeild þeirra sem falla undir ,,annað“ hefur hins vegar aukist með árunum.
Betri greining með fjölgun þjóðerna í talningu
Sá hópur sem hefur stækkað hvað mest samanstendur af ,,öðrum þjóðernum“ en þar á meðal eru Asíuþjóðir. Til að fá betri mynd af samsetningu farþega var þjóðernum í talningum fjölgað úr 17 í 32 í júní á síðasta ári, en þar var meðal annars bætt við Hong Kong-búum, Indverjum, Suður-Kóreumönnum, Singapúrbúum og Taívönum. Niðurstöður úr talningum sýna að 8% farþega það sem af er ári má rekja til Asíubúa og 6% til Austur-Evrópubúa.
Ferðir Íslendinga utan
Um 58 þúsund Íslendingar fóru utan í september í ár eða 1,1% fleiri en í september 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til september um 503 þúsund talsins eða 8,8% fleiri en á sama tímabili árið 2017.