Fara í efni

Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu og kynning á umhverfisviðmiðum VAKANS

Umhverfisverðlaunagripur
Umhverfisverðlaunagripur

Þann 15. desember næstkomandi  kl 15 mun Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra afhenda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu á Hótel Natura (Loftleiðir). Við sama tækifæri verður umhverfisviðmiðum nýja gæða- og umhverfisverkefnisins VAKANS einnig hleypt af stokkunum. Af þessu tilefni býður Ferðamálastofa samstarfsfélögum í ferðaþjónustunni til jólasamverustundar.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Auglýst var eftir tilnefningum í september sl. og bárust margar góðar ábendingar. Í fyrra fengu farfuglaheimilin í Reykjavík verðlaunin.

Gæða- og umhverfiskerfið VAKINN

Ferðamálastofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands hafa um nokkurt skeið unnið að samræmdu gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Kerfið nefnist VAKINN og verður innleitt á komandi ári. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi.

Umhverfiskerfið - gull, silfur , brons

Umhverfishluti kerfisins byggir á sjö höfuðflokkum:

  • Stefnumótun og starfshættir
  • Innkaup og auðlindir
  • Orka
  • Úrgangur
  • Náttúruvernd
  • Samfélag
  • Birgjar og markaður.

Í framhaldi af úttekt er þjónustuaðilunum raðað í 3 flokka, gull, silfur og brons.

Fyrirtæki geta byrjað að vinna að umhverfisviðmiðum

Á fundinum verða umhvergisviðmið Vakanns kynnt en til að öðlast gull eða silfur þá þurfa að hafa farið fram reglulegar mælingar sem gerðar hafa verið í 6-12 mánuði og sýna árangur á a.m.k. einum þætti sem getið er um í aðgerðaáætlun fyrirtækisins  á sviði umhverfismála. T.d: a) Minnkun úrgangs. b) Sparnað á rafmagni. c) Sparnað á heitu vatni. d) Sparnaði á eldsneyti.  Eftir að viðmiðin hafa verið kynnt, þ.e. eftir fundinn, geta fyrirtæki þannig byrjað að kynna sér umhverfisviðmiðin og sett af stað mælingar á fyrrtöldum þáttum. Kerfið verður formlega opnað í febrúar næstkomandi og eftir það er hægt að sækja um aðild.

Dagskrá:

  • Ávarp
    – Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri
  • Kynning á umhverfisviðmiðum Vakans 
    - Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu
  • Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu
    – Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra

*********
Boðið verður upp á léttar veitingar með jólaívafi í lokin.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið skraning@ferdamalastofa.is   fyrir lok dags þann 14. desember næstkomandi.

Vonumst til að sjá ykkur sem flest!

Með kveðju,
Starfsfólk Ferðamálastofu