Fara í efni

Almannarétturinn á tímum vaxtar ferðamennsku: Sjónarhorn landeigenda

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF og Pétur Óskarsson formaður SAF afhentu Juliu verðlaunin…
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF og Pétur Óskarsson formaður SAF afhentu Juliu verðlaunin.

Síðastliðinn föstudag veittu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi. Julia Kienzler hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. 

Ritgerð Juliu nefnist „Almannarétturinn á tímum vaxtar ferðamennsku: Sjónarhorn landeigenda“ (e. Public Right of Access in Times of Tourism Boom: Landowners‘ Perspectives). Leiðbeinendur Juliu voru Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor og Edda Ruth Hlín Waage dósent við Háskóla Íslands.

Þörf á skýrari lagaramma

Viðfangsefni ritgerðarinnar voru viðhorf landeigenda á Íslandi til vaxandi ferðamennsku, nauðsynlegrar uppbyggingar vinsælla ferðamannastaða og áhrifa þessa á almannaréttinn. Tekin voru viðtöl við landeigendur á vinsælum ferðamannastöðum sem gáfu innsýn í þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir við stýringu á fjölda ferðamanna og uppbyggingu kostnaðarsamra innviða til að vernda sameiginlega auðlind. Viðtölin sýndu fram á nauðsynlega aðkomu hins opinbera til að styðja við uppbyggingu innviða einkum til þeirra landeigenda sem hafa engan efnahagslegan ábata af komu ferðamanna. Höfundur ályktar að þörf sé á skýrari lagaramma um ferðamennsku á einkalandi og endurskoðun á almannaréttinum hér á landi með hliðsjón af umfangi ferðaþjónustunnar.

Skoða má ritgerðina á www.skemman.is