Einstakt tækifæri að kynna Ísland fyrir fagfólki í hvataferðageiranum
Í dag hófst á Hotel Nordica alþjóðleg ráðstefna fagaðila úr hvataferðageiranum. Hér er á ferðinni árleg ráðstefna samtaka á þessu sviði, "Society of Incentive & Travel Executives" (SITE). Með samstilltu átaki ýmissa aðila varð Ísland fyrir valinu sem ráðstefnustaður að þessu sinni.
Lykilfólk á þessu sviði
Erlendir gestir ráðstefnunnar eru um 300 talsins en um einstakt tækifæri er að ræða til að kynna fyrir fagfólki hvaðanæva úr heiminum það besta sem Ísland hafi upp á að bjóða fyrir hvataferðafarþega og einnig Reykjavík sem ráðstefnuborg. "Hingað koma af þessu tilefni fjölmargir aðilar sem geta haft mikil áhrif á það hvaða lönd verða fyrir valinu þegar velja skal áfangastað fyrir hvataferðahópa og ráðstefnur. Þetta er því kjörinn vettvangur fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki til að sýna þá fjölbreyttu möguleika sem í boði eru," er m.a. haft eftir Sigríði Gunnarsdóttur verkefnistjóra í nýútkomnu fréttablaði Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Sigríður segir að ráðstefnan sé að mestu leyti markaðssett af höfuðstöðvum SITE í Bandaríkjunum en einnig hafi verið að störfum verkefnastjórn á Íslandi sem lagt hafi sitt af mörkum í markaðssetningu hennar í Evrópu. Flugleiðahótelin bera ábyrgð á ráðstefnunni en í verkefnastjórn eru ráðstefnu- og ferðaskipuleggjendur frá Atlantik, Ferðaskrifstofu Íslands, Ráðstefnum og fundum, fulltrúi frá Ráðstefnuskrifstofu Íslands og fulltrúar frá Flugleiðahótelunum.
Umfangsmikil dagskrá
Dagskrá ráðstefnunnar er umfangsmikil undir yfirskriftinni "Revitalize Your Career: Renew, refresh rejuvenate." Áhugaverðir fyrirlestrar verða í boði alla daga ráðstefnunnar en hún stendur fram á föstudag. Lagt verður áhersla á ýmsa þætti t.d. ólíkar aðferðir við áætlanagerð og útvíkkun starfsemi, áhættustjórnun og öryggismál, sölu- og markaðsmál auk annarra málefna. Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Steve Zikman, þekktur greinarhöfundur hjá "National Business Travel Association", James H Gilmore sem hefur skrifað fjölda greina um viðskipti í blöð eins og "Harvard Business Review", "The Wall Street Journa"l ofl., og Yossi Ghinsberg höfundur "Heart of the Amazon".
Á vef Ráðstefnuskrifstofu Íslands má fræðast nánar um ráðstefnuna