Elías Bj. Gíslason settur ferðamálastjóri
Ráðherra ferðamála hefur falið Elíasi Bj. Gíslasyni að gegna starfi ferðamálastjóra þar til nýr ferðamálastjóri hefur verið skipaður. Embættið var auglýst laust til umsóknar í síðari hluta október og bárust 14 umsóknir.
Hæfnisnefnd tók til starfa í byrjun desember og hefur skilað tillögum til ráðherra sem á næstu dögum mun boða þá hæfustu til viðtals. Elías hefur starfað hjá Ferðamálastofu frá árinu 1998 og er forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs. Mun hann gegna því starfi samhliða. Elías hefur tvívegis áður verið settur ferðamálastjóri, árið 2014 og 2017.
Hann er með MBA gráðu frá Florida Institute of Technology og BSc gráðu í viðskiptafræði með áherslu á hótelstjórn frá Webber College í Bandaríkjunum. Þá er Elías einnig útskrifaður sem matreiðslumaður frá Hótel og veitingaskóla Íslands. Hann á að baki fjölþætta reynslu innan ferðaþjónustunnar, m.a. sem hótelstjóri á Hótel KEA og Edduhótelunum og sem atvinnu- og ferðamálafulltrúi í Vestmannaeyjum. Á árum áður starfaði Elías einnig hér heima og erlendis sem matreiðslumaður.