Enn gýs á Reykjanesi - Höldum gestum okkar upplýstum
Enn eitt gosið á Reykjanesi hófst skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Fréttir af gosinu hafa eins og við er að búast þegar birst í fjölmiðlum erlendis og eru lesnar af erlendum gestum sem hér eru staddir eða hyggja á ferð til landsins. Mikilvægt er nú sem fyrr að við tökum höndum saman um að halda gestum okkar upplýstum um stöðuna og áhrif sem atburðirnir á Reykjanesi hafa á ferðalög fólks.
Líkt og áður er ekki búist við að röskun verði á flugi til og frá landinu, sem eru mikilvæg skilaboð til að koma á framfæri. Mikilvægt er þó að hafa í huga, eins og reynslan sýnir, að hlutir geta breyst með skömmum fyrirvara og því hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með nýjustu fréttum.
Stöðuskýrslur á vef Ferðamálastofu
Ferðamálastofa hefur m.a. það hlutverk að tryggja upplýsingaflæði til ferðaþjónustunnar ásamt því að vera tenging ferðaþjónustunnar við Almannavarnir þar og þegar þess er þörf. Er það gert með því að upplýsa Aðgerðastjórn ferðaþjónustunnar um stöðu mála með reglubundnum hætti. Einnig sendir Ferðamálastofa út stöðuskýrslur reglulega á meðan hættustig er í gangi og eru þær jafnframt aðgengilegar jafn óðum á vef stofunarinnar.
Uppfærðar upplýsingar á visiticeland.com
Íslandsstofa hefur líkt og við fyrri atburði útbúið upplýsingapakka sem aðilar í ferðaþjónustu geta nýtt til að bregast við fyrirspurnum frá viðskiptavinum sínum erlendis um stöðuna. Hann getur einnig nýst fyrir starfsfólk í framlínu til að veita upplýsingar. Textann er að finna á Visit Iceland síðunni þar sem reynt verður að halda honum uppfærðum eftir því sem á líður. Slóðin er: https://www.visiticeland.com/article/volcano-info
Þarna inni eigið þið þannig alltaf að geta sótt nýjustu upplýsingar.
Aðgengi að ferðamannastöðum
Vert er að leggja áherslu á það við erlenda gesti okkar sem hér eru staddir að svæðið er lokað og fólk ætti ekki að reyna að komast að gosinu. Inn á vef Visitreykjanes.is er að finna uppfærðar upplýsingar af svæðinu um aðgengi að ferðamannastöðum og opnanir á meðan gos stendur yfir.