ETC kannar ferðavilja á fjarmörkuðum
Á dögunum birti Evrópska ferðamálaráðið (ETC) nýja skýrslu um ferðavilja á fjarmörkuðum Evrópu í sumar. Könnunin náði yfir Ástralíu, Kanada, Brasilíu, Kína, Japan og Bandaríkjunum. Evrópa hefur sem fyrr mikið aðdráttarafl og um helmingur þeirra sem hyggur á ferðalög til Evrópu í sumar frá umræddum löndum eru endurkomugestir.
Kostnaður skiptir meira máli
Svörin gefa til kynna að kostnaðarvitund hafi aukist og nefndu fleiri en áður (32%) kostnað sem mikilvægan þátt í ákvarðanatöku um áfangastað í Evrópu. Líkt og áður eru þó flestir sem nefna öryggi eða 39% og þar á eftir kemur aðbúnaður (tourism facilities) með 35%.
Aukin meðvitund um öfgar í veðurfari
Veðrið er annar þáttur sem fleiri nefna en áður (30%), sem rannsakendur telja geta bent til aukinnar meðvitundar um öfgar í veðurfari. Með vaxandi áherslu á sjálfbærni leiddi könnunin einnig í ljós að 21% svarenda setja áfangastaði sem standa vörð um náttúru- og menningararfleifð í forgang. Hins vegar nefna aðeins 15% heimsókn til fáfarnari áfangastaða (e. less crowded) sem mikilvægan þátt, sem hugsanlega stangast aðeins á.
Mismunur eftir mörkuðum
Kínverskir og brasilískir ferðalangar sýna hvað mestan áhuga á að heimsækja Evrópu á tímabilinu maí til ágúst á þessu ári og nefndu 73% svarenda frá Kína að hugur þeirra stefndi til Evrópu. Á lykilmörkuðum Íslands eins og Bandaríkjunum og Kanada var hlutfallið 36-38% en ferðaviljinn var áberandi minnstur meðal Japana.