ETC spáir áfram vexti í ferðaþjónustu í Evrópu en samdrætti í Bandaríkjunum
Evrópska ferðamálaráðið, ETC, kynnti mat á stöðu og horfum í evrópskri ferðaþjónustu þann 23. apríl 2025.
Spáð er að ferðaþjónustan í Evrópu muni halda áfram að vaxa á árinu 2025, þrátt fyrir tolla Trumps og aðra óvissu í alþjóðamálum, en ferðamönnum til Bandaríkjanna muni fækka á árinu, frá 2024. Spáin hljóðar upp á 8% fjölgun ferðamanna til Evrópu í heild (var 10% í spá desembermánaðar 2024). Ferðalöngum til Bandaríkjanna muni hins vegar fækka um 2% á milli ára (úr spá um 10% fjölgun í desember). Sjá glæru úr kynningunni hér til hliðar.
Fyrsti samdrátturinn í tölum í Bandaríkjunum kom fram í mars sl. þegar tæplega 12% færri heimsóttu ríkið en í mars 2024. Gangi spáin eftir verða því neikvæð áhrif tolla Trumps og annars óróleika á ferðaþjónustu langmest í Bandaríkjunum sjálfum á árinu.
Samkvæmt kynningunni felast í því tækifæri fyrir ferðaþjónustu utan Bandaríkjanna að sumar þjóðir draga úr ferðalögum sínum þangað. Þar má sérstaklega nefna Kínverja og Kanadabúa en skv. frétt FF7 hefur kanadíska flugfélagið WestJet þegar fjölgað flugferðum til Íslands í sumar m.v. áætlun þess í ársbyrjun. Að neðan má sjá yfirlit um hlutdeild Kínverja í langferðum (e. long haul travel) til Evrópu og Bandaríkjanna; fyrir tíma Trumps 2012-16, á tíma fyrri stjórnar Trumps 2017-2019 og spá um seinni stjórnartíð hans 2025-28. Þá hljóðar spáin upp á sterkan dollara á árinu, sem ýtir undir ferðalög Bandaríkjamanna erlendis en dregur frekar úr ferðalögum þangað.