Evrópubúar áforma í auknum mæli ferðalög að vori eða snemmsumars
19.04.2023
Um sjö af hverjum tíu Evrópubúum hafa áform um ferðalög næsta hálfa árið (apríl-september) samkvæmt nýlegri könnun Evrópska ferðamálaráðsins (ETC). Evrópubúar hafa í meira mæli en áður áform um vorferðalög eða ferðalög snemmsumars sem gefur til kynna að ferðalangar vilji forðast ferðamannaþröng og hitabylgjur.
Könnunin er nú lögð fyrir í fimmtánda sinn meðal helstu ferðamannaþjóða Evrópu¹.
Niðurstöðurnar sýna jafnframt að:
- hlutfallslega færri hafa áform (-5%) um að ferðast næsta hálfa árið en á sama tímabili í fyrra. Af þeim sem hafa í hyggju að ferðast ætla 27% í innanlandsferðir, um 30% í ferðalög til nágrannalanda, um 28% til annarra Evrópulanda og 11% til landa utan Evrópu.
- Evrópubúar eldri en 25 ára hafa sterkari tilhneigingu til að ferðast (74%) en þeir sem yngri eru (61%).
- um sjö af hverjum tíu ferðalögum (69%) sem Evrópubúar munu fara í næsta hálfa árið verða í tengslum við frí. Flestir hafa áform um sólarlandaferð (19%), borgarferð (15%), náttúrutengt (14%), menningartengt (18%) og strandtengt ferðalag (13%).
- áhuginn fyrir viðskiptaferðum eykst hægt og rólega.
- nærri 30% hafa í hyggju að ferðast á tímabilinu apríl-maí (+6% frá sama tímabili 2022), um 40% í júní eða júlí og 23% í ágúst og september (-9% frá árinu áður).
- að 1,6% Evrópubúa ætla í sína næstu utanlandsferð til Íslands (+0,2% frá sama tímabili í fyrra). Áhuginn er hins vegar mestur fyrir Miðjarðarhafslöndum; Frakklandi (8,2%), Spáni (7,6%), Ítalíu (7,4%) og Grikklandi (5,6%).
- það sem skiptir mestu máli við val á næsta áfangastað er náttúrulegt umhverfi og matarmenning. Hjá eldri aldurshópum (+45 ára) skorar menningartengd upplifun á áfangastað hærra en hjá þeim sem yngri eru.
- það sem veldur Evrópubúum mestum áhyggjum þegar kemur ferðalögum innan Evrópu er hækkandi ferðakostnaður (24%), efnahagsástand og persónulegur fjárhagur (17%) og stríðsátök í Evrópu (12%). Öfgar í veðri (7%) hafa bæst inn á ,,áhyggjulista“ ferðalanga.
- nærri tveir af hverjum fimm gera ráð fyrir að eyða meira en 1500 evrum í næstu ferð (+7% frá sama tímabili í fyrra).
- ríflega þriðjungur Evrópubúa gerir ráð fyrir að verja fjórum til sex nóttum í næsta ferðalagi, um fjórðungi sjö til níu nóttum og tæplega fjórðungi (23%) tíu eða fleiri nóttum. 17% ætla í stuttar ferðir (1-3 nætur).
Könnunin var gerð dagana 1.-7. mars 2023 en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar 14 sinnum frá haustmánuðum 2020, þær síðustu í maí, september og desember árið 2022.