Evrópubúar ferðast í meira mæli en fara færri ferðir
Nýjasta skýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) sem byggir á reglubundinni könnun* um ferðaáform Evrópubúa sýnir að ferðaviljinn er mikill næstu mánuði eða á tímabilinu júní til nóvember. Um 75% Evrópubúa eru með áform um að ferðast eða sex prósentustigum fleiri en fyrir ári síðan. Mest munar um ferðavilja Spánverja, Ítala og Breta en um átta af hverjum tíu svarendum í löndunum þremur sögðust ætla að ferðast á tímabilinu.
Könnunin leiddi ennfremur í ljós að 36% Evrópubúa ætla að fara í eitt ferðalag eða 6% fleiri en á sama tíma fyrir ári síðan og er líklegt að efnahagslegir þættir hafi einkum áhrif á að fleiri kjósa að fara einungis eina ferð. Um þriðjungur ætlar í tvær ferðir og tæplega fjórðungur í í þrjár eða fleiri.
Niðurstöður könnunarinnar sýna jafnframt:
- að ferðaviljinn er meiri hjá Evrópubúum eldri en 35 ára en þeim sem yngri eru og hefur aukist um 9% frá sama tíma í fyrra.
- að eldri Evrópubúar eru líklegri að dvelja lengur á ferðalögum en þeir sem yngri eru en meira en helmingur 45 ára og eldri ætlar að dvelja sjö nætur eða lengur á ferðalagi.
- að Evrópubúar á aldrinum 25-34 ára eru líklegri að eyða meiru á ferðalögum en aðrir aldurshópar.
- að ríflega helmingur (56%) hefur þegar bókað næstu ferð.
- að nærri þrír Evrópubúar af hverjum fimm (58%) sem hafa áform um ferðalög næstu sex mánuði ætla að ferðast innan Evrópu.
- að 54% ætla að ferðast með flugi á næsta áfangastað.
- að tvö prósent hafa áhuga á að fara í sitt næsta ferðalag til Íslands en mestur áhugi er þó fyrir ferðalögum til Spánar (8%), Ítalíu (8%) og Frakklands (7%).
- að flest ferðalög framundan verða farin í tengslum við frí (70%), 14% vegna heimsókna til vina og ættingja, 8% vegna ýmissa viðburða og 7% í öðrum tilgangi.
- að flestir Evrópubúar ætla í sólarlandaferð (19%) í sínu næsta ferðalagi, menningartengda ferð (17%), náttúrutengda-/útvistarferð (14%), borgarferð (13%) eða strandtengt ferðalag (13%).
- að Evrópubúa langar helst að njóta landslags (18%), matarupplifunar (17%), staðarmenningar (15%), að fara í skoðunarferðir (14%) og læra um sögu og menningu (13%) á ferðalögum sínum næstu mánuði.
- að 76% hafa breytt ferðahegðun sinni vegna loftslagsbreytinga. Um 17% segjast t.a.m. forðast áfangastaði þar sem öfga gætir í hitastigi og á það einkum við ferðalanga 55 ára og eldri (32%).
- að um 37% Evrópubúa hafa mestar áhyggjur af verðbólgu og fjárhagslegri stöðu varðandi ferðalög í Evrópu en geópólitísk spenna (22%), öfgar í veðurfari (10%), truflanir vegna verkfalla og undirmönnunar (10%) og fjöldi ferðamanna á áfangastöðum (9%) eru jafnframt áhyggjuefni.
*Könnunin var gerð dagana 25.maí til 7.júní 2024 af Mindhaus en sambærilegar kannanir hafa verð gerðar 18 sinnum frá haustmánuðum 2020, þær síðustu í apríl 2024, september 2023 og maí/júní 2023.
Könnunin náði til um sex þúsund íbúa í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki og var bundin við þátttakendur sem höfðu farið í a.m.k. tvö ferðalög á síðustu þremur árum (2021-2023/24) þar sem gist var yfir nótt. 46% þátttakenda voru karlar og 54% konur.