Fara í efni

Farfuglaheimilin í Reykjavík hljóta gæðavottun

Farfuglavottun
Farfuglavottun

Farfuglaheimilin í Reykjavík; í Laugardal og á Vesturgötu, fengu nýlega "HI Quality" gæðavottun sem er vottun alþjóðlegu Farfuglasamtakanna, Hostelling International. Vottunin er veitt fyrir gæði í aðbúnaði, þjónustu og innra eftirlit. ?

Hostelling International leggja mikið upp úr HI Quality gæðavottuninni og stefnt er að því að um 600 lykilheimili um allan heim séu vottuð fyrir árið 2012.  Árið 2005 var Farfuglaheimilið í Laugardal valið í hóp nokkurra heimila til að taka þátt í mótun HI Q gæðakerfisins. Síðan þá hefur starfslið Farfuglaheimilanna unnið að innleiðingu þess og uppbyggingu.  Því er um að ræða endurnýjaða vottun fyrir Farfuglaheimilið í Laugardal en nýja vottun fyrir Farfuglaheimilið á Vesturgötu.

Gæðakerfið er sniðið að rekstri ferðaþjónustufyrirtækja og tekur á flestum þáttum í starfsseminni s.s. þjónustu við gesti, verkferlum, samskiptum við birgja, gæðamælingum, starfsmannamálum og neyðar- og viðbragðsáætlunum. Tilgangur gæðakerfisins er að tryggja að til staðar sé virkt ferli fyrir forvarnir og úrbætur svo hægt sé að fyrirbyggja gæðavandamál.

Samkvæmt Sigríði Ólafsdóttur, rekstrarstjóra Farfuglaheimilanna í Reykjavík, er grundvallaratriði gæðastefnunnar að starfsfólk sé sífellt að leita leiða, hugmynda og aðferða við að bæta þjónustu og starfsemi farfuglaheimilanna. Starfsfólk hefur því ætíð að leiðarljósi að veita gestum sínum frábæra þjónustu þar sem gæði og afar hagstætt verð fara saman. “Það er einnig von okkar að innleiðing HI Quality gæðakerfisins muni enn frekar styrkja Farfuglahreyfinguna um allt land og þá miklu vinnu sem unnin er innan íslenskra ferðaþjónustuyfirvalda á sviði gæða- og umhverfismála.

Fyrir rétt um hálfu ári tóku Farfuglaheimilin á móti umhverfis- og gæðavottun Svansins, merki Norrænu ráðherranefndarinnar og eru þau ennþá einu umhverfisvottuðu  gististaðirnir  í Reykjavík.

Nánari upplýsingar eru á www.hostel.is

Mynd:
Starfsfólk Farfugla og Farfuglaheimilanna í Reykjavík fagna HI Quality gæðavottun sem veitt var Reykjavíkurheimilunum í Laugardal og á Vesturgötu á dögunum. Með á mynd er Iddan Kroll, gæðastjóri Hostelling International sem veitti Sigríði Ólafsdóttur rekstrarstjóra viðurkenningarnar.