Fara í efni

Ferðalög Íslendinga í fyrra og ferðaáform í ár

Niðurstöður úr árlegri könnun Ferðamálastofu meðal landsmanna um ferðalög á liðnu ári og ferðaáform á árinu 2023 liggja nú fyrir. Könnunin var gerð dagana 23. janúar til 23. febrúar og var framkvæmdin í höndum Gallup. Sambærileg könnun hefur verið framkvæmd á vegum Ferðamálastofu í rúman áratug, eða frá árinu 2010.

Samandregnar niðurstöður um ferðalög landsmanna 2022:

  • Utanlandsferðir
    • 74% landsmanna ferðuðust til útlanda árið 2022 sem er veruleg breyting frá fyrra ári (2021) en þá ferðuðust 37% landsmanna utan. Til samanburðar ferðuðust 80% til útlanda árið 2019 og 83% árið 2018.
    • Farnar voru að jafnaði 2,6 ferðir til útlanda, tæplega einni ferð skemur en árið áður (2021) en jafnmargar og árið 2019.
    • Meðalfjöldi gistinótta á ferðalögum utan var 21,4 nætur árið 2022 og hafa þær ekki mælst svo margar áður í könnunum Ferðamálastofu meðal landsmanna. Til samanburðar mældust þær 19 talsins árið 2019 og 20 árið 2018.
    • Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru sem fyrr vinsælustu áfangastaðirnir en þar á eftir komu Bretlandseyjar, Danmörk, Þýskaland, Ítalía, Bandaríkin og Kanada.
    • Ríflega helmingur (53%) þeirra sem ferðaðist utan fór í borgarferð, tæplega helmingur (48%) í sólarlandaferð, ríflega þriðjungur (35%) í heimsókn til vina eða ættingja og fimmtungur (19%) í vinnutengda ferð.
  • Ferðalög innanlands
    • 83% landsmanna ferðuðust innanlands árið 2022 sem er álíka hátt hlutfall og hefur mælst í könnunum Ferðamálastofu síðustu ár.
    • Farnar voru að jafnaði 6,5 ferðir, jafnmargar og árið 2021. Til samanburðar voru farnar 6,7 ferðir árið 2019 og 6,2 árið 2018.
    • Um 77% ferða innanlands á síðasta ári voru tilkomnar vegna ferðalaga þar sem landsmenn voru í fríi eða skemmtiferð vegna áhugamála eða tómstunda.
    • Um 15,3 gistinóttum var varið á ferðalögum innanlands á síðasta ári, um tveimur nóttum færri en árinu áður. Gistinæturnar voru hins vegar fleiri árið 2019 (+1,3) og árið 2018 (+2,4). Niðurstöður gefa til kynna að um 28% gistinótta á ferðalögum hafi verið eytt á Suðurlandi um 26% á Norðurlandi, um 16% á Vesturlandi, um 9% á Austurlandi, um 9% á Vestfjörðum, 10% á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi og 2% á hálendinu.  
    • Um 70% ferðuðust innanlands í júlí í fyrra.  
  • Dagsferðir
    • Um þrír af hverjum fimm landsmönnum fóru í dagsferð árið 2022 sem er nokkur fækkun frá árunum 2019-2021 (-5 til -6%).
    • Farnar voru að jafnaði 6,2 ferðir. Þeir sem fóru í dagsferð í fyrra (2022) fóru jafnmargar ferðir en í fyrri könnunum hafa dagsferðir mælst á bilinu 3,5-5,3.
    • Ríflega þriðjungur (36%) dagsferða árið 2022 var farinn á Suðurlandinu. Þar á eftir fylgdu ferðir á höfuðborgarsvæðinu (16% ferða), Vesturlandinu (13%) og Norðurlandinu (13%). Þingvellir voru líkt og fyrri ár vinsælasti áfangastaðurinn í dagsferðum.  

NPS skor - Talsmönnum ferðalaga innanlands fækkar

Meðmælaskor (NPS) landsmanna fyrir ferðalög innanlands mældist 15 í ársbyrjun 2023 en það mældist á bilinu 23-34 stig á árunum 2019-2022. Um er að ræða kvarða á bilinu 0-10 þar sem spurt er hversu líklegt eða ólíklegt sé að fólk muni mæla með ferðalögum innanlands. Hlutfall hvetjenda eða talsmanna ferðalaga á Íslandi (þeir sem gáfu 9-10 í einkunn) var lægra í ár en það hefur mælst síðastliðin fjögur ár. Um 42% voru í hópi hvetjenda í ár en á árunum 2019-2022 voru hvetjendur ferðalaga á bilinu 48%-56%. Þegar rökstuðningur svarenda í ár fyrir einkunnagjöf er skoðaður má sjá að um helmingur ummæla þeirra sem gáfu lægstu einkunn (0-6) og miðlungseinkunn (7-8) snérist um háa verðlagningu á ýmsum kostnaðarliðum í ferðaþjónustu og hversu dýrt væri að ferðast um landið.

Minnisstæðast 

Fjölmargt var nefnt þegar svarendur voru inntir eftir því hvað þeim fannst minnisstæðast úr ferðalögum sínum innanlands á síðasta ári. Náttúrutengdir þættir voru nefndir í miklum mæli sem og einstaka staðir og svæði á landinu. Auk þess nefndu fjölmargir ýmiss konar afþreyingu og menningartengda starfsemi. Um var að ræða opna spurningu þar sem svarendur gátu nefnt allt að þrjú atriði. Svörin má sjá í viðauka en þeim var raðað eftir 29 yfirheitum.   

Útivist

Spurt var um ástundun 19 útivistarmöguleika sem landsmenn stunda í daglegu lífi og á ferðalögum sér til heilsubótar og/eða ánægju. Tæplega sjö af hverjum tíu stunduðu  almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar á síðasta ári eða álíka margir og árið 2021. Um 18% skokkuðu eða stunduðu náttúruhlaup, um 17% fóru í lengri gönguferðir (þ.m.t. fjall- og jöklagöngur) og um 15% fóru í hjólaferðir einu sinni í mánuði eða oftar. Aðrir útivistarmöguleikar voru stundaðir í minna mæli.

 

Ferðaáform 2023

Ferðalög til útlanda leita jafnvægis

Þrír af hverjum tíu landsmönnum hafa í hyggju að ferðast meira innanlands í ár en í fyrra, ríflega helmingur (54%) svipað og um 17% minna. Um er að ræða svipaðar niðurstöður og komu fram í könnuninni fyrir ári síðan. Þegar kemur að utanlandsferðum áforma færri ferðalög í ríkari mæli (-21%) í ár en þegar spurt var á sama tíma í fyrra. Ríflega tveir af hverjum fimm (43%) ætla að ferðast svipað í ár til útlanda og þeir gerðu í fyrra og 23% minna.

Hvers konar ferðir eru fyrirhugaðar 2023

Ferðaáform landsmanna eru fjölbreytt að vanda. Um 52% ætla í sumarbústaðaferð innanlands á árinu , um 46% í heimsókn til vina og ættingja og um 32% í borgar- eða bæjarferð innanlands. Mun fleiri nefna í ár en í fyrra að þeir ætli í borgarferð erlendis (+14%) og fleiri ætla jafnframt í sólarlandaferð (+5%) og heimsókn til vina og ættingja (+3%). Um einn af hverjum tíu landsmönnum hefur engin ferðaáform á árinu.

Ferðalög á tímabilinu febrúar- maí 2023

Um sjö af hverjum tíu landsmönnum (69%) sögðust hafa áform um ferðalög næstu mánuði (febrúar til maí) þar sem gist yrði yfir nótt, þar af ætla ríflega tveir af hverjum fimm í sumarbústaðaferð, um tveir af hverjum fimm að heimsækja vini eða ættingja og um fjórðungur í borgar- að bæjarferð innanlands. Tæplega þriðjungur (30%) ætlar að nýta sér hótelgistingu. 

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun á tímabilinu 23. janúar til 23. febrúar 2023. Úrtakið var 1.933 einstaklingar, 18 ára og eldri af landinu öllu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Svarfjöldi var 1.043 einstaklingar og var þátttökuhlutfallið 52,3%. Gögn könnunarinnar voru vigtuð til þess að úrtakið endurspeglaði þýðið með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Gallup í samvinnu við Ferðamálastofu.  Í yfirgripsmikilli skýrslu um könnunina eru niðurstöður settar fram í 12 köflum með myndrænum hætti og í töflum, auk viðauka og leiðbeininga um túlkun niðurstaðna. Fremst eru samandregnar niðurstöður en þaðan er vísað í nánari útlistun á niðurstöðum einstakra spurninga. Í viðbótarskýrslu má finna niðurstöður úr spurningu um útivist landsmanna.