Fara í efni

Ferðalög Íslendinga og viðhorf til erlendra ferðamanna og ferðaþjónustu

Ferðamálastofa birtir nú niðurstöður úr nýrri könnun meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2017, ferðaáform þeirra á árinu 2018 og viðhorf til nokkurra þátta í tengslum við ferðamennsku á Íslandi. Könnunin hefur verið framkvæmd árlega með sambærilegum hætti frá árinu 2010.

Þátttakendur voru beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og er áhugavert að sjá hvernig viðhorfin hafa breyst ár frá ári. Svo virðist sem greina megi aukna jákvæðni til flestra þátta sem spurt er um frá því í fyrra. 

Um 84% ferðuðust innanlands á árinu 2017. Farnar voru að jafnaði 6,2 ferðir og var megintilgangur þeirra frí eða skemmtiferð. Suðurland og Norðurland voru þeir landshlutar sem flestir heimsóttu og þar var einnig um helmingur allra gistinátta. Ferðalangar greiddu fyrir tæpan helming gistinótta sinna en annars gistu flestir í sumarhúsi í einkaeign eða hjá vinum og ættingjum. 68% fóru í dagsferð og fóru þeir að jafnaði 4,7 ferðir.

Sundlaugar og söfn voru líkt og verið hefur sú afþreying sem algengast var að fólk greiddi fyrir en um þriðjungur greiddi ekki fyrir afþreyingu á ferðalagi sínu.

Aldrei hafa fleiri farið til útlanda, en tæp 80% svarenda ferðuðust utan á síðasta ári og fóru þeir að jafnaði 2,6 ferðir. Bretlandseyjar voru vinsælasti áfangastaðurinn en Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal komu þar á eftir.

Um níu svarendur af hverjum tíu áforma ferðalög á yfirstandandi ári og eru ferðaáform fjölbreytt sem fyrr. Um helmingur nefndi sumarbústaðaferð og borgarferð erlendis, litlu færri heimsókn til vina og ættingja og 37% stefna á sólarlandaferð.


Niðurstöður í skýrslu og vef

Niðurstöður má nálgast í skýrslu og á vefsvæði þar sem hægt er að skoða þær myndrænt með hliðsjón af fyrri könnunum og eftir nokkrum bakgrunnsbreytum; kyni, aldri, búsetu, menntun, starfi og heimilistekjum.

Viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna

Þátttakendur í könnuninni hafa verið beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Svarendur voru spurðir um það hversu sammála eða ósammála þeir væru nokkrum fullyrðingum sem birtast í gröfunum hér að neðan. 

  • Um helmingur svarenda var á þeirri skoðun að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á náttúrunni eða álíka hátt hlutfall og fyrir ári síðan en mun lægra hlutfall en í könnununum sem framkvæmdar voru árin 2014, 2015 og 2016.
  • Ríflega helmingur svarenda var á því að ferðaþjónusta hefði skapað eftirsóknarverð störf í sinni heimabyggð en hlutfall þeirra hefur minnkað jafnt og þétt frá 2014 sem hafa þá skoðun.
  • Tæplega helmingur var á því að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á eigin menningu, nokkru fleiri en í fyrra, þótt tilhneiging til lengri tíma virðist vera í þá átt að þeim fari fækkandi sem hafa þá sýn.
  • Um 45% töldu að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem þeir hefðu nýtt sér sem er nokkuð hærra hlutfall en könnunin í fyrra gaf til kynna (35,8%) en á svipuðu róli og fyrri kannanir (2014-2016).
  • Álíka margir telja að ferðamenn hafi breytt íslensku samfélagi til hins betra í ár og í fyrra eða tveir af hverjum fimm. Sama má segja um staðhæfinguna ,,Ferðamenn takmarka aðgengi Íslendinga að þjónustu“ en um 39% í ár og í fyrra voru á því að sú staðhæfing ætti við. Þetta er annað árið sem spurt er um þessa þætti.
  • Um 75% voru sammála þeirri fullyrðingu að álag ferðamanna á íslenska náttúru væri of mikið í könnuninni árið 2018, færri en árið 2017 þegar hlutfallið var 78,8%. Þegar til lengri tíma er litið benda niðurstöður til að þeim fjölgi sem telja álag ferðamanna á íslenska náttúru of mikið.

 

84% ferðuðust innanlands

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar ferðuðust um 84% innanlands í fyrra, álíka margir og 2016 og 2015. Farnar voru að jafnaði 6,2 ferðir og var megintilgangur flestra þeirra, eða í 70% tilfella, frí eða skemmtiferð. Um 18% ferða voru tilkomnar vegna vinnu eða viðskipta en í 12,9% tilfella var um að ræða annars konar ferð. Dvalið var að jafnaði 13,5 nætur á ferðalögum árið 2017 eða um einni nótt skemur en 2016 og 2015.

Flestir gista á Norðurlandi og Suðurlandi

Gistinætur innan einstakra landshluta gefa m.a. til kynna að ríflega fjórðungi gistinótta á ferðalögum hafi verið eytt á Suðurlandi árið 2017, fjórðungi á Norðurlandi og um fimmtungi á Vesturlandi og Vestfjörðum. Niðurstöðurnar eru nokkuð svipaðar og fyrir árið 2016 nema gistinætur á Vesturlandi virðast hlutfallslega færri árið 2017 en 2016. 

Ríflega helmingur greiddi ekki fyrir gistingu

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar í ár voru 45% gistinótta í greiddri gistingu, 15% á hótelum, gistiheimilum eða sambærilegri gistingu, 17% á tjaldstæðum og 13% í annars konar gistingu. Um 55% voru í ógreiddri gistingu, langflestar í sumarhúsi í einkaeign (27%) eða hjá vinum eða ættingjum (24%).

 

Hvert var farið?

Suðurland var sá landshluti sem flestir heimsóttu á árinu 2017 eða 60%. Þar á eftir kom Norðurland en 57% ferðuðust þangað. Spurt var síðan nánar um heimsóknir á 55 staði og svæði vítt og breitt á landinu og má kynna sér þær niðurstöður nánar í skýrslu og á gagnvirkum vef könnunarinnar.

 

Flestir í sund og söfn

Sundferðir eru sem fyrr sú afþreying sem algengast er að Íslendingar greiði fyrir á ferðum sínum um landið en 49% svarenda nefndu þann valkost. Næst á eftir komu söfn og sýningar með 24%, leikhús eða tónleikar með 13%, tónlistar- og bæjarhátíðir (11%) og veiði (11%). Aðrir valkostir voru nefndir af færri en 10% svarenda. Um þriðjungur greiddi ekki fyrir neina afþreyingu á ferðum um landið.

 

Upplýsingaöflun

Helmingur svarenda kvaðst hafa leitað upplýsinga varðandi ferðir sínar innanlands árið 2017 eða álíka hátt hlutfall og 2016. Flestir leituðu upplýsinga á netinu eða 41%. Þegar svarendur voru inntir eftir því hvers konar upplýsingum þeir voru að leita eftir svöruðu flestir að þeir hefðu aflað upplýsinga um afþreyingu (57%), veðrið og færð á vegum (56%), um opnunartíma (51%) og gistingu eða veitingastaði (50%). Niðurstöðurnar voru á sömu nótum og í könnunum fyrri ára.

Fleiri í dagsferðir

UM 68% fóru í dagsferð á síðasta ári og fóru þeir að jafnaði 4,7 ferðir. Dagsferð var skilgreind sem skemmtiferð, fimm klst. löng eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist væri yfir nótt. Fleiri fóru í dagsferð 2017 en árið áður þegar hlutfallið var 63% en þegar litið er til lengri tíma þá hefur hlutfall þeirra sem hefur farið í dagsferð verið á bilinu 62-72%.

Um 61% heimsóttu Suðurland í dagsferðum, ríflega þriðjungur Vesturland, um fjórðungur Reykjanes, um fjórðungur höfuðborgarsvæðið og um fimmtungur Norðurland.

Aldrei fleiri farið til útlanda

Um 78% aðspurðra fóru í utanlandsferð á árinu og er það hæsta hlutfall sem hefur mælst í könnunum Ferðamálastofu síðastliðin níu ár. Farnar voru að jafnaði 2,8 ferðir, fleiri en árið 2016 en þá voru farnar 2,5 ferðir að jafnaði. Gistinætur í útlöndum voru að jafnaði 18,8 nætur á árinu 2017, jafnmargar og árið 2016.

Flestir fóru í borgarferð eða 53,2% aðspurðra, 38,6% fóru í sólarlandaferð, 35,7% heimsóttu vini og ættingja og 24,2% fóru í vinnutengda ferð. Vinsælast var að heimsækja Bretlandseyjar en þangað fóru 37,9%, þar næst Spán eða Portúgal en þangað fóru 36,1%, þar á eftir Danmörku (23,3%), Norður-Ameríku (21,8%) og Þýskaland (17,5%).

Fjölbreytt ferðaáform fyrir yfirstandandi ár

Um níu af hverjum tíu hafa áform um ferðalög á árinu 2018 eða aðeins fleiri en í fyrra. Ferðaplönin eru fjölbreytt en helmingur ætlar í sumarbústaðaferð, 49% í borgarferð til útlanda, 46% í heimsókn til vina og ættingja innanlands og 23% í útlöndum. Ríflega þriðjungur (37%) ætlar í sólarlandaferð og ríflega þriðjungur í bæjarferð innanlands. Önnur ferðaáform tengdust m.a. vinaferð, útivistarferð, vinnuferð, íþróttatengdri ferð og því að elta góða veðrið.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun dagana 5.- 14. febrúar 2018. Úrtakið var 1.534 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 63,2%. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.