Fara í efni

Ferðalög landsmanna fjölbreytt og ýmis áform fyrir árið 2025


Séð yfir Bolungarvík en margir nefndu Vestfirði þegar spurt var um staði eða svæði sem svarendum þykja mest spennandi til ferðalaga.

 

Samkvæmt nýjustu könnun Ferðamálastofu um ferðalög landsmanna var ferðaárið 2024, líkt og árið áður, með líflegasta móti og áform um ferðalög á árinu 2025 ekki síður fjölbreytt. Könnunin, sem Gallup framkvæmdi fyrir Ferðamálastofu í byrjun ársins, sýnir að um 85% landsmanna ferðuðust innanlands á síðasta ári, um 72% fóru í dagsferð og um 81% í ferð til útlanda. Um 93% hafa áform um ferðalög ýmist innanlands eða utan.

 

Samandregnar niðurstöður um ferðalög landsmanna 2024:

 

Ferðalög innanlands

  • 84,6% landsmanna ferðuðust innanlands árið 2024 sem er álíka hátt hlutfall og mælst hefur í könnunum Ferðamálastofu síðustu ár.
  • Að jafnaði voru farnar 6,5 ferðir, sem er 0,7 ferð fleiri en árið 2023.
  • Um 75% innanlandsferða árið 2024 voru farnar í tengslum við frí, skemmtiferðir, áhugamál eða tómstundir, um 12% vegna vinnu eða viðskipta og 13% af öðrum ástæðum.
  • Meðalfjöldi gistinátta í innanlandsferðum árið 2024 var 17,2 nætur sem er um hálfri nótt fleiri en árið 2023. Flestum gistinóttum var eytt á Suðurlandi (29,6%) en einnig var umtalsverður hluti á Norðurlandi (22,8%) og Vesturlandi (14,8%). Um 10,3% gistinótta voru á Austurlandi, 10,2% á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, 8,3% á Vestfjörðum og 3,9% á hálendinu.  
  • Flestir landsmanna ferðuðust innanlands í júlí (69%) og ágúst (63%).
  • Sú afþreying sem flestir greiddu fyrir á ferðalögum um landið var sund og jarðböð (60,3%) og söfn og sýningar (23,9%).

 

Dagsferðir

  • Um 71,6% landsmanna fóru í dagsferð árið 2024 og fóru þeir að jafnaði 5,9 ferðir - jafnmargar og árið 2023.
  • Flestar dagsferðir voru farnar með það í huga að fara í bíltúr út úr bænum (40,6%), heimsækja vini og ættingja (36,2%), komast úr daglegu amstri (28,4%), fara í sund, náttúrulaug eða sjóböð (22,4%) eða í göngu eða fjallaferð (20,1%).
  • Langflestar dagsferðir áttu sér stað á Suðurlandi (37,6%), en einnig var nokkuð um ferðir á Vesturlandi (15,2%), höfuðborgarsvæðinu (14,8%), Reykjanesi (11,1%) og Norðurlandi (10,3%). Vægi annarra landshluta var mun minna.

 

Utanlandsferðir

  • 80,8% landsmanna ferðuðust til útlanda árið 2024, svipaður fjöldi og árið áður.
  • Að jafnaði voru farnar 2,8 ferðir til útlanda, álíka margar og árið áður.
  • Meðalfjöldi gistinótta á ferðalögum utanlands var 22,9 nætur árið 2024, hálfri nótt færri en árið 2023.
  • Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru vinsælustu áfangastaðirnir en þar á eftir komu Bretlandseyjar, Danmörk, Þýskaland, Bandaríkin og Kanada, Svíþjóð og Ítalía.
  • Ríflega helmingur (53,2%) fór í borgarferð, tæplega helmingur (46,0%) í sólarlandaferð, um þriðjungur (34,9%) í heimsókn til vina eða ættingja og ríflega fimmtungur (22,3%) í vinnutengda ferð.

 

Ferðaáform 2025

Nærri þrír af hverjum tíu (28,5%) landsmönnum hyggjast ferðast meira innanlands á árinu 2025 en þeir gerðu í fyrra, ríflega helmingur (54,9%) ætlar að ferðast álíka mikið og um 16,7% minna. Þegar kemur að utanlandsferðum, áformar ríflega fjórðungur (26,6%) að ferðast meira til útlanda, um helmingur (49,9%) álíka mikið og tæplega fjórðungur (23,5%) minna. Til samanburðar má nefna að á sama tíma fyrir ári síðan sögðust færri ætla að ferðast meira innanlands og utan – um fjórðungur (25,4%) innanlands og um fimmtungur (21,2%) til úlanda.

 

Hvaða ferðalög eru áformuð

Ýmiss konar ferðalög eru fyrirhuguð á árinu 2025. Af innanlandsferðum virðast sumarbústaðaferðir vera vinsælastar en þar á eftir koma heimsóknir til vina og ættingja, sem og borgar- og bæjarferðir innanlands. Ferðir þar sem veðrið ræður miklu um för njóta einnig vinsælda, líkt og ferðalög með vinum og klúbbum.

Þegar kemur að utanlandsferðum eru flestir á því að fara í borgarferðir en sólarlandaferðir fylgja fast á eftir.

 

Hvað stendur helst í veginum

Flestir landsmenn nefndu veðrið og hátt verðlag sem helstu hindranir fyrir innanlandsferðum á árinu 2025. Til samanburðar nefndu einungis 25,2% veðrið sem fyrirstöðu á sama tíma í fyrra en álíka hátt hlutfall (40,8%) taldi verðlagið hindrun.

Þessar niðurstöður endurspeglast einnig í meðmælaskori (NPS) fyrir innanlandsferðir, sem mældist 14 stig – svipað og í fyrra. Ástæður sem svarendur gáfu í tengslum við lágt skor tengdust að mestu leyti háu verði í ferðaþjónustu á Íslandi, sem virðist áfram draga úr jákvæðni gagnvart innanlandsferðalögum.

 

Hvaða staðir eru mest spennandi

Þó svo að helmingur landsmanna segist oftast fara á sömu staði þegar ferðast er innanlands, langar 77% að upplifa eitthvað nýtt og heimsækja áður ókunn svæði. Þeir staðir eða svæði sem svarendum þykja mest spennandi til ferðalaga eru:

  • Vestfirðir (16,4%)
  • Austurland/Austfirðir (11,6%)
  • Norðurland (7,8%)
  • Suðurland (7,5%)
  • Hálendið (5,9%)
  • Snæfellsnes (5,6%)
  • Akureyri (3,5%)
  • Vestmannaeyjar (3,3%)
  • Þórsmörk (2,6%)

 

 Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun á tímabilinu 24. janúar til 26. febrúar 2025. Úrtakið var 2.452 einstaklingar, 18 ára og eldri af landinu öllu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Svarfjöldi var 1.272 einstaklingar og var þátttökuhlutfallið 48,1%. Gögn könnunarinnar voru vigtuð til þess að úrtakið endurspeglaði þýðið með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Gallup í samvinnu við Ferðamálastofu.  Í yfirgripsmikilli skýrslu um könnunina eru niðurstöður settar fram í 12 köflum með myndrænum hætti og í töflum, auk viðauka og leiðbeininga um túlkun niðurstaðna. Fremst eru samandregnar niðurstöður en þaðan er vísað í nánari útlistun á niðurstöðum einstakra spurninga. Í viðbótarskýrslu má finna niðurstöður úr spurningu um ástundun 19 útivistarmöguleika sem landsmenn stunda í daglegu lífi og á ferðalögum sér til heilsubótar og/eða ánægju. Könnunin hefur verið gerð árlega 16 ár í röð og fátítt er að til sé svo löng og samfelld tímalína samanburðargæfra gagna, ekki síst í ferðaþjónustu.

Eldri kannanir

 

Skýrslur

* NPS (Net Promoter score): Um er að ræða alþjóðlegan mælikvarða sem segir til um mismun á hlutfalli þeirra sem eru tilbúnir að mæla með t.d. áfangastað, fyrirtæki eða vöru og hlutfalli þeirra sem eru líklegri til að mæla gegn sömu þáttum. NPS skor getur verið á bilinu -100 til 100.

Nánari upplýsingar gefur Oddný Þóra Óladóttir - oddny@ferdamalastofa.is