Fara í efni

Ferðalög og frístundir um helgina

Ferðasýning 2009 lógó
Ferðasýning 2009 lógó

Sýningin Ferðalög og frístundir verður haldin í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal dagana 8.-10. maí nk. Þar sameinast á einum stað allt sem viðkemur ferðalögum og  frístundum, innanlands og utan. Sýningin Golf 2009 verður haldin samhliða Ferðalögum og frístundum ? og kjarninn í ferðasýningunni verður Ferðatorgið, þar sem ferðamálasamtök  og markaðsstofur landshlutanna kynna ferðaþjónustu á sínu svæði. Á Matartorginu verða svo þrjár matreiðslukeppnir á vegum Klúbbs matreiðslumeistara, ásamt því að fyrirtæki í matvæla- og veitingageiranum kynna starfsemi sína. Keppnirnar eru Matreiðslumaður ársins, Matreiðslumeistari Norðurlanda og landshlutakeppnin Íslenskt eldhús 2009. Þá fer fram á sýningunni úrslitaviðureign í keppninni Delicato vínþjónn Íslands 2009, sem haldin er af Vínþjónasamtökum Íslands.

Fjölmargir sýnendur úr öllum landshlutum hafa skráð sig til leiks og að sögn Margrétar Sveinbjörnsdóttur, kynningar- og verkefnastjóra sýningarinnar, er mikill hugur í fólki. Hún segir sérstaklega ánægjulegt að sjá ferðaþjónustufyrirtæki í ákveðnum landshlutum taka sig saman og kynna starfsemi sína undir sameiginlegum merkjum.

Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytni ferðaþjónustu og frístundamöguleika og vekja athygli á þeim öflugu fyrirtækjum og stofnunum sem koma að ferða-, frístunda- og afþreyingarmálum. Á sýningunni verða kynntir þeir fjölbreyttu möguleikar sem í boði eru og bent á nýjar og spennandi leiðir til að upplifa og kynnast landinu; auk þess sem framboð á ferðum til útlanda verður kynnt. Ennfremur verða kynntir möguleikar golfíþróttarinnar hérlendis sem erlendis í tengslum við ferðalög, og fjölbreytt framboð frístunda-, afþreyingar- og íþróttastarfs. Matarmenning er samofin velheppnuðum ferðalögum og frístundum og fellur því vel að sýningunni að kynna hana. Sýningunni er ætlað að vera einskonar ?fyrsta stopp? fyrir fjölskylduna til að afla sér upplýsinga um það sem í boði er í sumar.

Ferðatorgið hefur verið haldið sjö sinnum frá árinu 2000 og er því ætlað að vera markaðstorg ferðaþjónustu á Íslandi. ?Ferðatorgið verður sem fyrr kynning þeirra mörgu ferða- og afþreyingarmöguleika sem bjóðast á Íslandi. Markmið okkar með Ferðatorginu er að stuðla að auknum ferðalögum Íslendinga um eigið land. Ferðaþjónusta hér innanlands er víða mesti vaxtarbroddur atvinnulífsins,? segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.

Á sýningunni Golf 2009 verður hægt að nálgast á einum stað allt það nýjasta um golfíþróttina ? og þeir sem hafa áhuga á að kynna sér golfið í fyrsta sinn finna líka eitthvað við hæfi því golfkennarar verða á staðnum til að ráðleggja þeim um fyrstu skrefin. Þar verður einnig sérstakt krakkagolfsvæði með kylfum og boltum ætlað börnum með öryggi þeirra að leiðarljósi. ?Ætlun okkar er að kynna það starf sem fram fer á golfvöllum landsins og bjóða fyrirtækjum sem þjónusta kylfinga og golfvellina að kynna starfsemi sína. Útbúin verður glæsileg aðstaða í sýningarhöllinni þar sem hægt verður að prófa og fá upplýsingar um nýjasta búnaðinn auk þess sem golfklúbbar landsins hafa aðstöðu til að kynna sig. Golfsýningin verður jákvæð og uppbyggileg byrjun á skemmtilegu golfsumri,? segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands.
 
Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar iðnaðarráðuneytið, Ferðamálasamtök Íslands, Ferðamálastofa, Golfsamband Íslands og Icelandair. Nánari upplýsingar er að finna á www.ferdalogogfristundir.is.

Nánari upplýsingar veitir: Margrét Sveinbjörnsdóttir, kynningar- og verkefnastjóri sýningarinnar Ferðalög og frístundir, í síma 514 1430 eða farsíma 863 7694.