Ferðamál og kynjuð orðræða
Næstkomandi þriðjudag, 30. ágúst, mun Annette Pritchard, prófessor við háskólann í Cardiff Wales, halda fyrirlesturinn "Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða". Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 Odda og hefst kl. 16.15
Á ensku nefnist fyrirlesturinn "Tourism and Gendered Discourses. The Importance of Locating Gender Issues at the Heart of Tourism Education". Hann er haldinn á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og ferðamálafræði Háskóla Íslands.
Dr. Annette Pritchard er forstöðumaður Welsh Centre for Tourism Research við háskólann í Cardiff, og gestaprófessor við New Zealand Tourism Research Institute. Hún hefur bakgrunn úr félagsvísindum, fjölmiðlafræði og félagsfræði ásamt alþjóðastjórnmálafræði. Eftir hana liggja um 100 bækur og greinar í alþjóðlegum tímaritum um ímyndir, markaðssetningu í ferðamennsku og kynjafræði, um kyngervi og um stjórnmál ferðamála.
Dr. Annette Pritchard er aðalfyrirlesari á heimsfundi menningarmálaráðherra úr röðum kvenna sem er haldinn í Reykjavík 29. og 30. ágúst á vegum Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders).
Í fréttatilkynningu segir að dr.Pritchard hafi m.a. staðið að því að byggja upp teymi kynjafræðinga í ferðamálafræðum og sé í forsvari fyrir First International Conference on Critical Tourism Studies sem haldin var í Dubrovnik í Króatíu, í júlí 2005. Hún er ennfremur stjórnarmaður í Executive Committee of the Association for Tourism in Higher Education á Bretlandi og í ritstjórn tímaritsins Journal of Tourism and Cultural Change and Leisure Studies, ásamt því að vera reglulega með innlegg um ferðamál í útvarpi og sjónvarpi BBC.