Ferðamálaráðstefnan ályktar um Reykjavíkurflugvöll
Ein ályktun var samþykkt á Ferðamálaráðstefnunni á Radisson SAS Hótel Sögu sl. fimmtudag. Snýr hún að áhyggjum vegna háværrar umræðu um flutning innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni.
Orðrétt hljóðar ályktunin:
Ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands 2005, haldin í Reykjavík 27. og 28. október, lýsir yfir áhyggjum vegna háværrar umræðu um flutning innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni. Reykjavíkurflugvöllur er tengistöð landsbyggðar og höfuðborgar og þar af leiðandi afar mikilvægur fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, bæði vegna áætlunarflugs milli landshluta en einnig vegna dagsferða sem farnar eru frá flugvellinum með ferðamenn.
Greinargerð sem fylgdi ályktuninni:
Í ferðamálaáætlun 2006-2015 kemur skýrt fram að árstíðarsveiflan í ferðaþjónustunni og lítil dreifing út á landsbyggðina yfir vetrarmánuðina stendur í vegi fyrir viðunandi nýtingu fjárfestinga innan greinarinnar. Fjölgun ferðamanna utan háannatíma hefur að miklu leyti einskorðast við höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Góðar samgöngur og hindrunarlítið flæði ferðamanna um landið er ein helsta forsenda þess að auka megi ferðamannastraum til staða utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er sá tími sem ferðamenn nota til ferðalaga um Ísland alltaf að styttast og flugsamgöngur því að verða æ mikilvægari. Reykjavíkurflugvöllur leikur þar af leiðani lykilhlutverk í þróun ferðaþjónustu á öllu Íslandi og flutningur hans úr Vatnsmýrinni myndi hafa afar neikvæði áhrif á vöxt og viðgang þessarar framtíðaratvinnugreinar.