Ferðamálastofa birtir fjárhags- og rekstrargreiningu atvinnugreina og fyrirtækja í ferðaþjónustu fyrir árið 2023
Myndin sýnir árlega arðsemi eigin fjár íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu (með flugi og flugtengdri þjónustu) í gagnagrunni Ferðamálastofu á árabilinu 2015-2023. Upplýsingarnar eru úr skattframtölum fyrirtækjanna. Athugið að tölur fyrir Covid-árin 2020-2022, og að einhverju marki 2023, eru litaðar af fjárhagslegum stuðningsaðgerðum hins opinbera o.fl. við fyrirtækin.
Heimild: Mælaborð ferðaþjónustunnar
Allar upplýsingar á einum stað í mælaborði
Ferðamálastofa hefur birt fjárhags- og rekstrargreiningu atvinnugreina og fyrirtækja í öllum helstu greinum ferðaþjónustu fyrir árið 2023 í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Þar er hægt að skoða fjárhag, rekstrartölur, sjóðstreymi og ýmsar lykilkennitölur eftir undirgreinum ferðaþjónustu, landssvæðum, stærðarflokkun fyrirtækja og einstökum félögum frá árinu 2015 til 2023. Í fjárhagsgagnagrunni Ferðamálastofu eru nú ársreikningar hátt á fjórða þúsund íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu fyrir þetta tímabil.
Auk skoðunar og greiningar í Mælaborði ferðaþjónustunnar geta notendur sótt grunngögnin í mælaborðið á Excel-formi til eigin vinnslu.
Mjög gott ferðaþjónustuár 2023
Árið 2023 reyndist ferðaþjónustunni drjúgt. Árið var fyrsta fulla rekstrarárið án ferðatakmarkana vegna Covid-19. Eftir góða fyrstu viðspyrnu greinarinnar eftir faraldurinn á seinni hluta árs 2022 má segja að öll hjól hafi snúist af krafti þetta ár. Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll urðu ríflega 2,2 milljónir, 11% fleiri en 2019, síðasta ár fyrir faraldur, og aðeins um 100 þúsund færri en metfjöldaárið 2018.
Eins og sjá má á myndinni að ofan, úr mælaborði ferðaþjónustunnar, reyndist arðsemi eigin fjár fyrirtækja í ferðaþjónustu tæplega 21% árið 2023 skv. skattframtölum þeirra. Hefur svo góð arðsemi ekki sést síðan á árunum 2015-16, en arðsemi fór mjög lækkandi síðustu ár fyrir faraldur, 2017-2019. Rétt er þó hafa í huga að áhrifa margvíslegra og umfangsmikilla stuðningsaðgerða við fyrirtæki í ferðaþjónustu í faraldrinum kann enn að gæta að einhverju marki í fjárhagstölum þeirra fyrir árið 2023.
Opna Mælaborð ferðaþjónustunnar.
Nánari upplýsingar:
Berglind Jónsdóttir, berglind.jonsdottir@ferdamalastofa.is