Fara í efni

Ferðamálastofa gerist aðili að Alþjóðaráðinu um sjálfbæra ferðaþjónustu - The Global Sustainable Tourism Council



Ferðamálastofa gerðist nýverið aðili að The Global Sustainable Tourism Council (GSTC), Alþjóðaráðinu um sjálfbæra ferðaþjónustu.

Alþjóðlegir staðlar sem byggja á fjórum meginstoðum

Global Sustainable Tourism Council, sem stofnað var árið 2007, hefur þróað og sett fram alþjóðlega staðla um sjálfbæra ferðaþjónustu. Staðlarnir byggja á fjórum meginstoðum:

  • Sjálfbær stjórnun (sustainable management)
  • Félags-og hagræn áhrif (socioeconomic impacts)
  • Menningarleg áhrif (cultural impacts)
  • Umhverfisáhrif (environmental impacts)

Ná fram sameiginlegri sýn á hugtakið sjálfbær ferðaþjónusta

Meðlimir GSTC eru frá öllum heimshornum; stjórnvöld, stofnanir, áfangastaðastofur, háskólar, vottunaraðilar, ráðgjafafyrirtæki, ferðaþjónustufyrirtæki, einstaklingar o.fl. sem sameinast í því að vilja ná fram sameiginlegri sýn á hugtakið sjálfbær ferðaþjónusta. 

Af nágrannalöndunum eru m.a. Svíþjóð, Finnland og Noregur meðlimir. Þar utan má t.a.m. nefna Nýja Sjáland, Costa Rica, Sviss, ITB Berlin, Booking.com, AirBnB, Easy Jet Holidays, TUI, Green Key, Earth Check, Green Globe o.fl. sem eru aðilar að GSTC.

Hafa lengi verið forgangsmál hjá Ferðamálastofu

„Sjálfbærni og gæðamál hafa lengi verið forgangsverkefni Ferðamálastofu, segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Má í því sambandi nefna Vakann, gæða- og umhverfisvottun fyrir ferðaþjónustuna en Vakinn hefur staðið ferðaþjónustunni hér landi til boða frá árinu 2012“.

Við þróun viðmiða Vakans, hefur meðal annars verið horft til viðmiða GSTC. Í nýsamþykktri ferðamálastefnu fyrir ferðaþjónustuna til 2030 er lögð fram sú framtíðarsýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun.

Séum í takti við alþjóðlega staðla

„Ferðaþjónustan er ein af stærstu atvinnugreinum okkar á Íslandi. Í henni felast margvísleg tækifæri en á sama tíma verður að huga að jafnvægi og sjálfbærni og gæta að náttúrunni okkar og menningarverðmætum. Það er mjög mikilvægt að á þessum tímapunkti samræmum við okkar hugsun og aðgerðir í takti við alþjóðlega staðla. Þess vegna höfum við ákveðið að ganga til liðs við Global Sustainable Tourism Council (GSTC) til að bæði læra af og leggja okkar að mörkum til sjálfbærrar ferðaþjónustu á heimsvísu“ segir Arnar Már Ólafsson ennfremur.

Ánægð með aðkomu Ferðamálastofu

Starfsemi GSTC er margvísleg og má m.a. nefna þróun og útgáfu staðla um sjálfbæra ferðaþjónustu, faggildingu fyrir vottunarstofur, mat og viðurkenningu á fyrirliggjandi stöðlum og vottunarkerfum (recognition), ráðgjöf fyrir stjórnvöld í stefnumótun, námskeið, fræðslu o.fl. 

„Við erum afar ánægð með að Ferðamálastofa hefur ákveðið að ganga til liðs við okkur hjá GSTC og að Ísland sé staðráðið í að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu. Við hlökkum til að vinna með þeim, í átt að okkar sameiginlega markmiði sem er að ferðaþjónustan á heimsvísu verði sjálfbær“ segir Randy Durband, forstjóri GSTC.