Ferðamálastofa og Vakinn á Mannamóti
17.01.2019
Starfsfólk Ferðmálastofu verður með bás á ferðasýningunni Mannamóti 2019 í Kórnum í Kópavogi í dag kl. 12-17. Fyrir sýningunni standa markaðsstofur landshlutanna en hún er nú haldin í 6. sinn og vex ár frá ári.
Kynna þjónustu sína fyrir höfuðborginni
Ferðaþjónustuaðilar frá öllu landinu fjölmenna á sýninguna en fyrirtæki frá landshlutunum eru 270 talsins en þeim fylgir hópur hátt í 400 einstaklinga sem munu taka á móti gestum sínum frá höfuðborgarsvæðinu og kynna fyrir þeim þjónustu, spennandi áfangastaði og ýmsar nýjungar.
Vakinn og öryggisáætlanir
Áhersla Ferðamálastofu verður á Vakann, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar og gerð öryggisáætlana en samkvæmt nýjum lögum um ferðamál ber hver sá sem hyggst bjóða upp á ferðir á íslensku yfirráðasvæði ábyrgð á að til staðar séu öryggisáætlanir.