Fara í efni

Ferðamálastofa semur við Maskínu um landamærarannsókn og brottfarartalningar

Stuðlagil að vetri.
Stuðlagil að vetri.

Ferðamálastofa bauð í byrjun febrúar út rekstur á landamærarannsókn og brottfarartalningum í Keflavík. Niðurstaða útboðsins er að Maskína tekur við rekstri rannsóknanna frá og með 1. apríl næstkomandi.

 

Ein af lykilstoðum í ferðamálatölfræði

Landamærarannsóknin er ein af lykilstoðum í ferðamálatölfræði á Íslandi. Hún veitir meðal annars upplýsingar um ákvörðunarferli ferðamanna þegar kemur að Íslandsferð og ferðavenjur þeirra hér á landi, ásamt viðhorfi til þátta sem snerta ferðaþjónustuna. Niðurstöður eru birtar reglubundið í Mælaborði ferðaþjónustunnar og einnig í samantektarskýrslum á vef Ferðamálastofu. Í mælaborðinu má m.a. sjá NPS ánægjuskor ferðamanna mánuð fyrir mánuð. NPS skorið var yfir 75 að meðaltali á árinu 2024, sem telst afar hátt.

Þá má einnig nefna að Hagstofan nýtir upplýsingar úr rannsókninni til að meta umfang óskráðra gistinótta í landinu auk þess spurningar um eyðslu eru nýttar við mat á útgjöldum ferðamanna.

 

Mat á skiptingu þjóðerna

Brottfarartalningar notaðar til að varpa ljósi á þjóðernaskiptingu þeirra sem yfirgefa landið frá Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða könnun þar sem farþegar eru spurðir um þjóðerni áður en þeir ganga inn í öryggisleit. Hlutfallsleg skipting brottfararfarþega er svo umreiknuð í farþegafjölda á þjóðerni út frá tölum Isavia um heildarfjölda brottfara. Niðurstöður eru birtar mánaðarlega í Mælaborði ferðaþjónustunnar og vef Ferðamálastofu. Sjá nánar í lýsigögnum fyrir brottfarartalningar.

 

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri:

„Það er fagnaðarefni að fá jafnt öflugt fyrirtæki og Maskínu að borðinu til að framkvæma þessar mikilvægu rannsóknir. Ferðaþjónustan þarf virkilega á því að halda að hafa góð og áreiðanleg gögn til að byggja á. Eins og oft hefur verið bent á þá vantar sannarlega meira fjármagn til rannsókna í ferðaþjónustu og því afar mikilvægt að nýta vel það sem úr er að spila.“

 

Nánari upplýsingar:
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri -  arnar@ferdamalastofa.is 
Heirún Erika Guðmundsdóttir, forstöðumaður, rannsóknir og þekking -  heidrun@ferdamalastofa.is