Fara í efni

Ferðaplön Evrópubúa í vor og sumar: Fleiri ferðir, lengri dvöl og hærri útgjaldarammi

Í vikunni birti Evrópska ferðamálaráðið - ETC, niðurstöður nýrrar könnunar um ferðaplön Evrópubúa í vor og sumar. Samkvæmt henni má greina nokkrar breytingar í áformum fólks. Fram kemur að þó aðeins færri ætli sér að ferðast (72% samanborið við 75% í fyrra), þá er fólk að skipuleggja lengri ferðir, ætlar að eyða meira og er tilbúið prófa nýja áfangastaði.

Mismunur milli landa

Hlutfall þeirra sem áforma ferðlög er hæst í Póllandi (80%), Bretlandi (79%), Hollandi (75%), Spáni (75%) og Ítalíu (73%). Hins vegar sýna Frakkar (65%), Belgar (68%), Austurríkismenn (69%), Svisslendingar (69%) og Þjóðverjar (70%) minnstan áhuga á ferðalögum.

Fólk er farið að sækjast meira í viðburðatengdar ferðir og óhefðbundin svæði. Suðrænir áfangastaðir eins og á Miðjarðarhafssvæðinu missa aðeins í vinsældum – niður um 8% – á meðan áhugi á Austur-Evrópu eykst um 3%.

Ferðatíðni og fjármál

Um 27% ætla að fara í þrjár eða fleiri ferðir á tímabilinu apríl til september 2025 – sem er 6% aukning frá sama tíma í fyrra. 42% stefna á frí sem vara 7–12 nætur – sem er 11% aukning frá 2024.

Meðalútgjöldin hækka líka – næstum þriðjungur fólks (30%) ætlar að eyða á bilinu 1.501–2.500 evrum í hverja ferð og 17% stefna á enn hærri upphæð.

Þó að fjármál séu enn helsta hindrunin fyrir fólk að ferðast, þá eru áhyggjur af verðbólgu og kostnaði að minnka – frá 23% niður í 17%, og áhyggjur af eigin fjármálum eru nú 14% (lækkað um 3%).

Það sem fólk ver mestu í er gisting (27%), svo matur og drykkur (20%) og þá afþreying á áfangastaðnum (16%). Ungt fólk (18–24 ára) vill frekar eyða í verslanir (15%) og lúxus (11%), á meðan eldra fólk (55+) leggur meira upp úr þægindum – með meiri pening í gistingu (33%) og mat (24%).

Meira spenna fyrir óvenjulegum áfangastöðum

Suður-Evrópa og Miðjarðarhafssvæðið eru enn vinsæl og 41% Evrópubúa ætla þangað í vor og sumar. En það er samt örlítil lækkun frá í fyrra – því fleiri eru farnir að horfa til annarra svæða. Ríki eins og Austurríki, Bosnía og Hersegóvína, Albanía, Belgía og Búlgaría fá nú aðeins meiri athygli – um 1% aukningu hvert.

Þó vinsælustu staðirnir séu enn borgir, ferðamannabæir og sumarleyfissvæði (sem 53% kjósa), þá eru líka margir sem vilja fara á minna þekkt svæði (35%) og 13% ætla á „ósnortnari“ staði innan þess lands sem þau velja.

Þeir sem fara á minna vinsæla staði dvelja oftar lengur – 38% ætla að vera meira en 10 daga, samanborið við 21% þeirra sem fara á hefðbundna staði – og þeir eyða meira, margir yfir 2.500 evrum í ferðina.

Loftslagsvitund hefur áhrif á ferðalög

Fólk er líka orðið meðvitaðra um loftslagið þegar það velur ferðir. Þannig segjast 81% að loftslagsbreytingar hafi einhvern áhrif á hvernig þau ferðast – sem er 7% aukning frá í fyrra.

Þetta birtist m.a. þannig að 17% segjast fylgjast meira með veðurspám, 15% leita að svæðum með mildara loftslagi og 14% forðast staði þar sem hætta er á miklum hita. Þetta gæti útskýrt af hverju fólk er farið að horfa í kaldari eða óhefðbundnari svæði yfir sumartímann.

Hvað þýðir þetta fyrir Ísland

Velta má fyrir sér hvað þessar niðurstöður gætu þýtt fyrir ferðalög Evrópubúa til Íslands. Ýmis atriði ættu þannig fremur að koma okkur til góða, svo sem áhugi á mildara loftslagi, óvenjulegri áfangastöðum og ósnortnari svæðum. Þar sem ferðalög til Íslands teljast einnig í dýrari kantinum ætti hærri útgjaldarammi einnig að geta komið okkur til góða, sem og lengri áformaður dvalartími.

Á móti kemur að fjórir af lykil mörkuðum okkar sýna talsvert minni almennan ferðavilja, eða áætlanir um ferðalög, nú en í fyrra. Þetta eru Frakkland (-10%), Ítalía (-9%), Þýskaland (-6%) og Spánn -5%).

 

Skýrslan í heild