Ferðasýningar og vinnustofur 2015
Íslandsstofa tekur þátt í ýmsum ferðaviðburðum fyrir Íslands hönd á komandi ári. Þar gefst íslenskum aðilum í ferðaþjónustu tækifæri til að hitta ferðasöluaðila á hverjum markaði fyrir sig.
Næstu viðburðir
Í janúar verður farið á ferðasýningarnar Vakantibeurs í Utrecht í Hollandi, sem stendur yfir í sex daga, og MATKA í Helsinki. Um mánaðarmótin janúar/febrúar er stefnan tekin á árlegu sýninguna FITUR í Madrid, sem er stærsta ferðasýningin á spænska markaðinum en hana sækja að jafnaði yfir 200 þúsund gestir. Í mars er komið að ITB í Berlín, einni stærstu sýningu sinnar tegundar í heiminum, og TUR ferðasýningunni í Gautaborg. Þá tekur Ísland í fyrsta sinn þátt á MITT ferðasýningunni í Moskvu, en gaman er að segja frá því að þegar hafa sex íslensk fyrirtæki skráð sig þar til leiks.
Frá Skandinavíu til Kína
Jafnframt sækir Íslandsstofa vinnustofur víða um heim þessa fyrstu mánuði ársins, allt frá Skandinavíu, Sviss og Írlandi til Austur-Evrópu og Kína.