Ferðatæknimót 17. janúar - Ferðaþjónustufyrirtæki og tæknifyrirtæki leidd saman
Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn í samstarfi við EDIH - Miðstöð stafrænnar nýsköpunar halda þann 17. janúar næstkomandi svokallað Ferðatæknimót, eða stefnumót fyrirtækja um lausnir á sviði ferðatækni og stafrænna tækifæra í ferðaþjónustu. Viðburðurinn fer fram í grósku í Vatnsmýrinni og er hluti af Ferðaþjónustuvikunni 20224.
Ferðatæknimót leiðir saman fyrirtæki, frumkvöðla og aðra úr atvinnulífinu á örstefnumótum. Ferðatæknimót er vettvangur fyrir fyrirtæki sem leitast eftir/bjóða upp á ráðgjöf og lausnir, á sviði ferðaþjónustu. Hér er átt við hverskyns lausnir sem styðja við ferðatækni og aðra starfræna þróun innan ferðaþjónustunnar.
Markmið viðburðarins eru að:
- Leiða saman ferðaþjónustufyrirtæki og tæknifyrirtæki
- Stuðla að stafrænni þróun og markvissri notkun á tækni í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja, öllum til hagsbóta
- Hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til að kynna sér þær lausnir og tækni sem eru í boði
- Bjóða tæknifyrirtækjum upp á vettvang til að kynna sínar lausnir og þjónustu.
Fyrirtækjastefnumót - Hvernig virkar það?
Ferðatæknimótið er vettvangur fyrir aðila til að hittast á snörpum fundum til að ræða tækifæri til samstarfs vegna áskorana og verkefna sem tengjast stafrænni þróun innan ferðaþjónustunnar. Fljótleg og þægileg leið til að hitta mögulegan samstarfsaðila. Hver fundur er 15 mínútur og fara fundirnir fram milli kl. 13.00 og 15.00. 15 mínútur eru fljótar að líða, en þær eru nóg til að búa til fyrstu tengsl sem má síðan byggja ofan á síðar.
Skráning er hafin og vert að bregast fljótt við það sem þátttakendafjöldi er takmarkaður.