Ferðaþjónusta í tölum - Samantekt fyrir sumarið 2022
Í samantektinni Ferðaþjónusta í tölum – sumar 2022 má sjá samantekt um brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, gistinætur á skráðum gististöðum, framboð og nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd, heimsóknir eftir landshlutum sem og upplifun af Íslandsferð.
Ferðamannafjöldinn 81% af metsumrinu 2018
Um 653 þúsund erlendir ferðamenn* komu til landsins um Keflavíkurflugvöll síðastliðið sumar (2022), ríflega tvisvar sinnum fleiri en í fyrrasumar (2021). Fjöldinn í sumar var um 96% af því sem hann var sumarið 2019 og um 81% af því sem hann var sumarið 2018 sem var metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna.
Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir, 205 þúsund talsins eða tæplega þriðjungur heildarfjölda. Um er ræða þriðja sumarið frá því talningar hófust sem fjöldi Bandaríkjamanna fer yfir 200 þúsund en þeir mældust um 293 þúsund sumarið 2018 og 227 þúsund sumarið 2017. Þjóðverjar voru í öðru sæti í sumar, tæplega 63 þúsund talsins eða um 36 þúsund fleiri en í fyrrasumar (2021) og tæplega 6 þúsund fleiri en sumarið 2019. Í þriðja til fimmta sæti voru Frakkar, Bretar og Ítalir. Ítalir hafa einungis einu sinni áður komist á lista yfir fimm fjölmennustu þjóðernin að sumarlagi eða sumarið 2020 en þá voru þeir í fjórða sæti.
Langflestir eða ríflega níu af hverjum tíu ferðamönnum voru í fríi á Íslandi í sumar. Um 2,8% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 2,2% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 1,6% voru í annars konar tilgangi.
Ívið lengri dvalarlengd en fyrir Covid
Ferðamenn dvöldu að jafnaði 8,6 nætur á ferðalögum um Ísland í sumar, hálfri nótt skemur en í fyrrasumar (2021). Þegar horft er til dvalarlengdar sumrin 2019 og 2018 má sjá ívið styttri dvalarlengd en ferðamenn dvöldu að jafnaði 7,8 gistinætur sumarið 2019 og 7,5 sumarið 2018. Áhrifa Covid-19 faraldursins virðist því enn gæta en dvalarlengd erlendra ferðamanna á Íslandi lengdist til muna á tímum faraldursins.
Bandaríkjamenn sem vega þyngst vegna hárrar hlutdeildar dvöldu að jafnaði 7,1 nótt sumarið 2022. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Þjóðverjar, Pólverjar og Frakkar með lengstu dvalarlengdina eða á bilinu 10,5 - 11,3 nætur. Þar á eftir koma Spánverjar, Hollendingar og Ítalir með dvalarlengd á bilinu 9,3 - 9,7 nætur.
Metfjöldi gistnótta á hótelum
Gistinætur á hótelum voru tæplega 1,7 milljón talsins síðastliðið sumar (2022), 680 þúsund fleiri en þær voru sumarið 2021 og 237 þúsund fleiri 2019, sumarið áður en heimsfaraldur Covid-19 skall á.
Um átta af hverjum tíu gistinóttum voru tilkomnar vegna erlendra ferðamanna en þær voru um tvöfalt fleiri en í fyrrasumar (2021). Jafnframt mældust þær 4% fleiri en sumarið 2019 sem sýnir að lengri dvalarlengd hefur vegið upp á móti færri ferðamönnum.
Nýting herbergja á hótelum 89% í júlí og ágúst
Sumarið 2022 voru í boði um 11.600 herbergi á landinu öllu þegar mest var, þar af var tæplega helmingur (46,8%) á höfuðborgarsvæðinu. Framboðið á herbergjum var 17% meira en árið 2021 og 7% meira en árið 2019. Herbergjanýting á landsvísu var tæplega 80% í júní og 89% í júlí og ágúst. Nýtingin fór yfir 90% í þremur landshlutum í júlí og ágúst eða á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Austurlandi. Í öðrum landshlutum var hún á bilinu 79-84%. Í júní var nýtingin á bilinu 69-82% en best var hún á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi.
Aldrei fleiri gistinætur erlendra ferðamanna
Gistinætur erlendra ferðamanna aldrei mælst svo margar að sumri til á skráðum gististöðum og í ár eða ríflega fjórar milljónir talsins. Þar af voru um átta af hverjum tíu gistinóttum tilkomnar vegna erlendra ferðamanna. Um tveimur af hverjum fimm gistinóttum var eytt á hótelum, um 16% á gistiheimilum og ríflega tveimur af hverjum fimm í annars konar gistingu.
Gistinætur á skráðum gististöðum í sumar voru um 54% fleiri en í fyrrasumar og tæplega fimmtungi fleiri en sumarið (2019). Aukninguna má að miklu leyti rekja til fjölgunar gistinótta erlendra ferðamanna en gistinætur þeirra hafa aldrei mælst svo margar að sumri til eða tæplega 3,4 milljón talsins. Gistinætur Íslendinga drógust saman um þriðjung milli ára 2021 til 2022. Met var slegið sumarið 2021 en þá eyddu landsmenn tæplega 1,2 milljónum gistinótta á ferðalögum um landið og hið sama má segja um sumarið 2020 enda Íslendingar einstaklega duglegir að ferðast innanlands á tímum faraldursins.
* Fjöldatölur taka mið af brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og ber að skoða tölurnar með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.