Ferðaþjónusta í tölum, sumar 2024 - samantekt
Í samantektinni Ferðaþjónusta í tölum – sumar 2024 má sjá samantekt um brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, gistinætur á skráðum gististöðum og framboð og nýtingu á hótelum. Um er að ræða mánuðina júní-ágúst.
Um 770 þúsund erlendar brottfarir erlendra farþega í sumar
Brottfarir erlendra farþega* frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll voru um 770 þúsund í sumar (2024), um 19 þúsund færri en í fyrrasumar (2023). Fækkunin nemur 2,4% milli ára. Um er að ræða fjórða fjölmennasta ferðamannasumarið frá því mælingar hófust. Fjöldi brottfara var um 96% af þeim fjölda sem mældist sumarið 2018 sem var metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna.
36,5% brottfara sumarsins 2024 voru í ágúst, 35,9% í júlí og 27,6% í júní
Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir, alls 265 þúsund, eða ríflega þriðjungur ferðamanna. Um er ræða þriðja fjölsóttasta sumarið fyrir Bandaríkjamenn en áður höfðu þeir mælst 301 þúsund sumarið 2023 og 293 þúsund sumarið 2018. Þjóðverjar voru í öðru sæti, um 56 þúsund talsins eða 5 þúsund færri en árið 2023 (-8,2%). Í þriðja sæti voru Ítalir um 36 þúsund talsins og hafa þeir ekki áður mælst svo margir. Í fjórða sæti voru Pólverjar, tæplega 35 þúsund og í því fimmta Frakkar, 34 þúsund talsins.
Þegar litið er til brottfara erlendra farþega eftir markaðssvæðum í sumar sést að Norður-Ameríkanar voru langflestir, eða tveir af hverjum fimm farþegum. Um fjórðungur kom frá Mið- og Suður-Evrópu, um einn af hverjum tíu frá Norðurlöndunum og Bretlandseyjum, og ríflega einn af hverjum tíu frá Austur-Evrópu eða öðrum löndum Evrópu sem ekki eru talin sérstaklega í þjóðernatalningum Ferðamálastofu. Um átta prósent komu frá Asíu og 3,3% frá öðrum heimshlutum.
Gistinætur**erlendra ferðamanna á hótelum færri en 2023 og 2022
Gistinætur á hótelum í sumar (2024) voru tæplega 1,7 milljón talsins samkvæmt gistináttatalningum Hagstofu Íslands, eða um 31 þúsund færri (-1,8%) en sumarið 2023 og um 19 þúsund færri (-1,1%) en sumarið 2022. Um átta af hverjum tíu gistinóttum má rekja til erlendra ferðamanna, en þær voru um 85 þúsund færri (-6,0%) sumarið 2023 og 64 þúsund færri (-4,6%) en sumarið 2022.
Nýting herbergja á hótelum best í ágúst
Sumarið 2024 voru í boði 12.128 herbergi á landinu öllu þegar mest var, þar af tæplega helmingur (46,0%) á höfuðborgarsvæðinu. Framboð herbergja jókst lítillega frá síðasta sumri (2023) og sumrinu 2022 eða um 3,2% til 4,6%. Herbergjanýting á landsvísu var hæst ágúst, eða 86% en þar á eftir fylgdu júlí (81% nýting) og júní (74% nýting).
Þegar nýting er skoðuð eftir einstaka landshlutum má sjá besta nýtingu á Suðurlandi í ágúst eða 90% og 89% á höfuðborgarsvæðinu. Í öðrum landshlutum var hún á bilinu 72% til 82% í ágúst. Í júlí var nýtingin jafnframt best á Suðurlandi eða 85% en þar á eftir kom höfuðborgarsvæðið og Norðurland með 81% nýtingu. Aðrir landshlutar voru með nýtingu á bilinu 69% til 77%. Í júní var nýtingin best á Suðurlandi (78%) en verst á Vesturlandi og Vestfjörðum (61%) og Austurlandi (62%).
Gistinætur á skráðum gististöðum um fjórar milljónir
Gistinætur á skráðum gististöðum í sumar mældust um fjórar milljónir talsins. Um er að ræða tæplega 34 þúsund færri gistinætur (-0,8%) en sumarið 2023 en það var metsumar í skráðum gistinóttum. Í samanburði við sumarið 2022 voru gistinætur 2,3% fleiri árið 2024. Um tveimur af hverjum fimm gistinóttum var eytt á hótelum, um 14% á gistiheimilum og ríflega tveimur af hverjum fimm (44,8%) í annars konar gistingu.
Gistinætur útlendinga í skráðri gistingu mældust tæplega 3,1 milljón talsins í sumar, eða 2,0% færri en í fyrrasumar (2023) og 2,9% fleiri en sumarið 2022. Áhrif lengri dvalartíma ferðamanna í kjölfar COVID-19 faraldursins virðist því enn gæta. Gistinætur Íslendinga voru í kringum 979 þúsund í sumar, svipaður fjöldi og sumrin 2020-2023. Enginn afturkippur hefur orðið í fjölda gistinátta Íslendinga, þar sem landsmenn hafa áfram nýtt sér þjónustu gististaða í auknum mæli frá COVID-19 faraldrinum.