Ferðaþjónustan í Eþíópíu kynnir sér uppbyggingu hérlendis
Ferðamálastofa fékk góða gesti í liðinni viku þegar hér dvaldi 12 manna hópur ferðaþjónustufólks frá Eþíópíu. Tilgangurinn var að kynnast ferðaþjónustu á Íslandi og sá Ferðamálastofa um skipulag ferðarinnar.
Í lok heimsóknarinnar var skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf á milli Ferðamálastofu og Tourism Ethiopia.
Samstarf við Alþjóðabankann
Heimsóknin var hluti af samstarfsverkefni stjórnvalda í Eþíópíu og International Finance Corporation (IFC), einnar af stofnunum Alþjóðabankans.
Fengu kynningar víða
Í eþíópíska hópnum voru m.a. fulltrúar frá stjórnsýslu ríkis og borgar, Tourism Ethiopia, Ethiopian Airlines, flugvallarins í Addis Ababa, samtaka ferðaþjónustunnar auk fulltrúa IFC. Hópurinn fékk ítarlegar kynningar á starfsemi Ferðamálastofu, Icelandair og Isavia auk kynninga frá Íslandsstofu, Lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, Bláa Lóninu, Íslenska Ferðaklasanum, Hellisheiðarvirkjun, Landnámssetrinu í Borgarnesi, Friðheimum, SAF, Icelandair Hotels, Gagarín, Reykjavik Geothermal og Mountaineers of Iceland.
Áhugi á stop-over módelinu
Ein ástæða heimsóknarinnar var áhugi á stopover-líkaninu, sem hefur verið notað um áratuga skeið í uppbyggingu og markaðssetningu ferðaþjónustunnar hérlendis sem tenging á milli Evrópu og N-Ameríku. Flugvöllurinn í Addis Ababa er þriðji stærsti flugvöllur Afríku og aðalstarfsstöð Ethiopian Airlines, stærsta flugfélags Afríku. Því gæti stopover-líkanið hentað vel til frekari uppbyggingar ferðaþjónustu í Eþíópíu.
Kynnisferð um Suður- og Vesturland
Þá gafst einnig tími til þess að sýna gestum okkar nokkrar af helstu perlum Borgarfjarðar og Suðurlands og voru þeir himinlifandi yfir því, sem fyrir augu bar. Eftirminnileg var t.d. heimsókn á eþíópíska veitingastaðinn Minilik á Flúðum, þar sem að boðið var upp á kaffi með hefðbundnu, eþíópísku sniði en kaffið er jú upprunnið í Eþíópíu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í heimsókninni.
Sendinefndin í heimsókn hjá Ferðamálastofu. Með á myndinni eru Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri og Snorri Valsson, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu, sem hafði veg og vanda af skipulagningu heimsóknarinnar.
Komið var við hjá Geysi í Haukadal.
Í heimsókn á eþíópíska veitingastaðinn Minilik á Flúðum.