Fjárhagsstaða ferðaþjónustu 2020 og 2021 - Kynning á fjárhagsgreiningu og birting skýrslu
KPMG hefur unnið ítarlega greiningu á fjárhagsstöðu ferðaþjónustunnar fyrir Ferðamálastofu og eru niðurstöður hennar kynntar í skýrslu sem gefin hefur verið út. Byggir hún á ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2020, utan flugs og flugtengdrar starfsemi. Þá er sótt í margvíslegar aðrar upplýsingar um rekstur og efnahag greinarinnar. Skýrslan kemur í kjölfar tveggja fyrri skýrslna sem gerðar voru árið 2020 þar sem notast var við ársreikninga 2018 og 2019. Hún ætti að gefa góða mynd af rekstri ferðaþjónustufyrirtækja í því árferði sem ríkt hefur vegna COVID faraldursins. Skýrslan var kynnt á opnum veffundi Ferðamálastofu og KPMG í dag.
Helstu niðurstöður skýrslunnar um rekstrarárið 2020 eru:
- Mikill samdráttur varð á öllum sviðum ferðaþjónustunnar. Það varð tekjuhrun. Ferðaþjónustufyrirtækjum hefur þó tekist að aðlaga sig með því að lækka kostnað. Hafa úrræði stjórnvalda skipt miklu í þeirri aðlögun. Heildaráhrif stuðningsaðgerða utan skattfrestana og lánveitinga eru metin um 25 ma.kr. árið 2020.
- Um þriðjungur fyrirtækja í ferðaþjónustu skilaði jákvæðri rekstrarafkomu árið 2020.
- Eigið fé ferðaþjónustufyrirtækja lækkaði um 35 ma.kr. á árinu 2020. Þó er meirihluti fyrirtækja í ferðaþjónustu með jákvæða eiginfjárstöðu en ljóst er að 3 ára eiginfjármyndun hefur þurrkast út í faraldrinum.
- Umtalsverðar skammtímaskuldir hafa safnast upp hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Í árslok 2020 var það allt að 25 ma.kr. umfram það sem eðlilegt var. Erfitt getur reynst að vinna á þessum skuldum nema með frekari lántöku eða nýju eigin fé. Er þetta eitt af þeim verkefnum sem brýnast er að leysa.
- Hlutfall vaxtaberandi skulda miðað við afkomu er of hátt en áætlað er að um 800 félög af 2.200 beri illa skuldir sínar í árslok 2021 miðað við afkomu rekstrar árið 2019.
- Til að bregðast við þessari stöðu munu ferðaþjónustufyrirtæki áfram þurfa að leita leiða til að hagræða í rekstri og auka framlegð. Eins verður þörf á endurskipulagningu fyrirtækja og samþjöppun í greininni á næstu misserum.
Skýrslan leitast við að varpa ljósi á rekstur ársins 2021 og eru helstu atriði þar um þessi:
- Eftir heldur dræma mánuði fyrri hluta árs 2021 tók við fjölgun ferðamanna á þriðja ársfjórðungi og október var nokkuð góður. Eftir það dró hins vegar úr komu ferðamanna hingað með fjölgun smita hérlendis og erlendis. Ferðamenn árið 2021 voru um 690 þúsund.
- Meðaldvalarlengd jókst milli ára og var að jafnaði tæplega fimmtungi lengri árið 2021 en árið 2019. Kortavelta jókst einnig nokkuð milli þessara ára. Vísbendingar eru um að samsetning útgjalda ferðamanna sé að breytast þó meðaleyðsla á dag standi nokkurn veginn í stað.
- Stuðningsaðgerðir stjórnvalda námu tæpum 11 ma.kr. árið 2021 auk lánveitinga og frestana á greiðslum skatta og gjalda. Samtala stuðningsaðgerða til ferðaþjónustunnar á árunum 2020 og 2021 til hækkunar tekna og lækkunar kostnaðar nam tæpum 36 ma.kr.
- Áætlað er að heildartekjur ferðaþjónustunnar utan flugs á árinu 2021 hafi numið 238 ma kr., sem er hækkun um 85 ma.kr. frá 2020. Rekstrarafkoma (EBIT) 2021 er áætluð -21 ma kr sem er svipað og var árið á undan.
- Eiginfjárhlutfall lækkar úr 19% í árslok 2020 í 12% í árslok 2021.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri:
"Með þessari skýrslu er varpað ljósi á fjárhagslega stöðu ferðaþjónustunnar nú þegar vonandi hyllir undir lok COVID. Skuldir fyrirtækjanna hafa aukist og eigið fé minnkað. Staðan er erfið. Fyrirtækin hafa hins vegar sýnt sveigjanleika og náð að aðlaga reksturinn breyttum forsendum. Það þarf að skoða hvort gera megi ráð fyrir að afkoma greinarinnar á næstu árum geti staðið undir skuldsetningu og þeirri fjárfestingu sem mun þurfa að eiga sér stað á komandi árum. Viðspyrna greinarinnar þarf að verða möguleg."
Benedikt Magnússon sviðsstjóri ráðgjafasviðs KPMG:
"Það er ljóst að staða ferðaþjónustunnar var farin að þrengjast strax árið 2019, áður en COVID skall á okkur af fullum þunga. Það má því segja að fyrirtæki hafi að einhverju leyti farið inn í faraldurinn með uppsöfnuð vandamál eins og háa skuldastöðu og minnkandi framlegð. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa án efa forðað mörgum félögum frá gjaldþroti en nú þegar loksins dregur úr mestu óvissunni vegna COVID þurfa fyrirtæki að horfast í augu við stöðuna. Það eru ýmsir möguleikar til að bregðast við stöðunni, og einhver þeirra geta mögulega selt frá sér eignir sem nýta má með öðrum hætti en fyrir ferðaþjónustu, til dæmis hótel og gistirými."
Skýrsluna má nálgast með því að smella á hnappinn að neðan.
Fjárhags- og rekstrargreining íslenskrar ferðaþjónustu fyrir árin 2020 og 2021
Kynningu skýrslunnar má nálgast í spilaranum að neðan:
Nánari upplýsingar veita:
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri
S. 660 0063 / skarphedinn@ferdamalastofa.is
Benedikt Magnússon, sviðsstjóri Ráðgjafarsviðs KPMG
S. 861 5252 / bmagnusson@kpmg.is