Framkvæmdasjóður ferðamannastaða: Auglýst fyrr og lengri frestur
Ákveðið hefur verið að flýta ferlinu við auglýsingu og úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna framkvæmda á árinu 2023. Einnig á að lengja þann frest sem umsækjendur hafa til að sækja um. Markmiðið með breytingunni er að auka svigrúm þeirra sem hyggjast sækja um styrki úr sjóðnum fyrir næsta ár og auðvelda þeim að undirbúa framkvæmdir í tíma.
Reiknað er með að auglýsa eftir umsóknum um styrki í sjóðinn núna í lok ágúst og opið verði fyrir umsóknir í 6 vikur í stað fjögurra áður, þ.e. umsóknarferlið nái fram í byrjun október. Auglýsing mun m.a. birtast á vef Ferðamálastofu, vef ráðuneytis ferðamála og í fjölmiðlum.
Hlutverk sjóðsins
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.
Markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.