Fundað með ferðaþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra
Í gær voru Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, og Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs stofnunarinnar, á ferð í Húnaþingi vestra. Funduðu þeir með heimamönnum og tóku púlsinn á ferðaþjónustu svæðisins.
Stefnt á opnun Selaseturs næsta vor
Fyrst var fundað á Gauksmýri með forsvarsmönnum Selasetursins á Hvammstanga. Þar var m.a. rætt um framtíðaráform Selasetursins, fjármögnunarleiðir og fleira. Markmið Selasetursins eru að reka sýningu og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn á Hvammstanga og stuðla að almennri þekkingu um sjávarspendýr, náttúrufar og búskaparhætti við strendur Vatnsness. Eru þar víða góðar aðstæður til að skoða seli í sínu náttúrulega umhverfi. Er stefnt á að opna Selasetrið næsta vor.
Grettir sterki í forgrunni
Þá var einnig fundað á Gauksmýri með forsvansmönnum Grettistaks en markmið þess verkefnis eru að efla menningu og atvinnulíf í Húnaþingi vestra með því að nýta menningararf og sögu svæðisins. Eins og nafnið ber með sér er þar Grettir sterki Ásmundsson og saga hans í forgrunni. Er m.a. unnið að uppbyggingu fræðaseturs á Laugarbakka sem hlotið hefur nafnið Grettisból. ?Báðir þessir fundir voru ákaflega fróðlegir og gagnlegir og tengjast vel þeirri miklu gerjun sem nú á sér stað víða um land á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu,? segir Elías.
Almennur fundur á Hvammstanga
Um kvöldið var síðan boðað til almenns fundar með ferðaþjónustuaðilum svæðisins og var hann haldinn á Hvammstanga. Fundurinn var vel sóttur og bar margt á góma. ?Við fórum m.a. yfir og skýrðum út hlutverk og starfsemi Ferðamálaráðs og fræddumst hjá heimamönnum um það sem er efst á baugi hjá þeim. Þannig held ég að fundurinn hafi verið afar gagnlegur fyrir alla aðila,? segir Elías.
Mynd: Hvítserkur við Vatnsnes.