Fyrsta ritrýnda grein FerNor

Tímaritið Ferðamál á norðurslóðum (FerNor) hefur birt fyrstu ritrýndu grein sína. FerNor er fagtímarit, gefið út af Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF), en útgáfan er samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Akureyri. Markmiðið er að skapa vandaðan vettvang fyrir þverfræðilega umfjöllun um ferðamál, ferðamennsku og ferðaþjónustu á norðurslóðum og auka með því fræðilega þekkingu og styrkja faglega umræðu.
Þrír meginflokkar starfsfólks
Greinin ber titilinn Tales from the Frontier of sustainable global connectivity: A typology of Arctic tourism workers. Þar segja höfundar, þau Charlotte Gehrke og Hannes Hansen-Magnusson, frá rannsókn sem gerð var meðal starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi, í Noregi og Kanada. Niðurstöður rannsóknar sýna að skipta megi starfsfólki í þrjá flokka:
- Sögumenn
- Kennara
- Sérfræðinga.
Líkt og við á um allar útgáfur FerNor tímaritsins, er greinin í opnum aðgangi, án endurgjalds og má nálgast hana hér: https://arctictourism.is/index.php/arctour/issue/view/vol2_issue1