Gistinóttum á hótelum í október fjölgaði um 27% á milli ára
Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 74 þúsund en töldust 58 þúsund árið 2002. Þetta er 27% aukning á milli ára. Það er sem kunnugt er Hagstofan sem sér um söfnun þessara upplýsinga.
Í takt við tölur Ferðamálaráðs
Afar áhugavert er að sjá að sú fjölgun sem Hagstofan mælir í gistinóttum á sér samsvörun í talningum Ferðamálaráðs á þeim ferðamönnum sem fara um Leifsstöð. Samkvæmt þeim fjölgaði erlendum ferðamönnum um 26,79% í október 2003 miðað við sama mánuð í fyrra.
Tvöföldun á Norðurlandi
Ánægjulegt er að í október fjölgaði gistinóttum á milli ára um nánast allt land. Aðeins á Suðurlandi er fækkun sem nam 3%. Mest fjölgaði gistinóttum á Norðurlandi en þar tvöfaldaðist fjöldinn og fór úr 3 þúsundum í 6 þúsund milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinæturnar 55 þúsund í októbermánuði síðastliðnum en voru 44 þúsund árið á undan, sem telst vera 26% aukning. Gistinætur á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fóru úr 4.700 í 5.800 milli ára og fjölgaði þar með um 23%. Á Austurlandi nam aukningin um 20% þegar gistinætur í október fóru úr 1.600 í 2.000 milli ára. Tölur fyrir 2003 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.