GJ Travel hlaut hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu
Veitt í sjöunda sinn
Hvatningarverðlaunin voru veitt í tengslum við Dag ábyrgrar ferðaþjónustu, sem fram fór í Grósku sem hluti af Ferðaþjónustuvikunni 2025.
Þetta er í sjöunda sinn sem hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu eru veitt, en verkefnið var sett af stað að frumkvæði Íslenska ferðaklasans og Samtaka ferðaþjónustunnar í lok árs 2016. Í dag er verkefnið í eigu alls stoðkerfis ferðaþjónstunnar með áherslu á að efla hæfni og þekkingu stjórnenda þegar kemur að sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu.
Leiðandi fyrirtæki í 94 ár
Í umsögn dómnefndar í ár segir að Guðmundur Jónasson ehf - GJ Travel hafi í 94 ár verið leiðandi í ábyrgri ferðaþjónustu með virðingu fyrir íslenskri náttúru að leiðarljósi. Um árabil hafi fyrirtækið lagt áherslu á að lágmarka kolefnisspor, styðja við nærsamfélagið og tryggja öryggi gesta og starfsmanna.
Það er mat dómnefndar að ábyrgir og sjálfbærir rekstrarhættir endurspeglist í öllu sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur og er sjálfbærnin fléttuð inní starfsmannamenningu fyrirtækisins þar sem starfsfólk fær reglulega þjálfun og kemur að því að móta stefnu fyrirtækisins. Lögð er rík áhersla á öryggismenningu innan fyrirtækisins sem dómnefnd lagði til grundvallar í sínu máli.
Við mat dómnefndar var einnig horft til samfélagslegrar ábyrgðar GJ travel og hversu öflugt félagið hefur verið í samstarfi við stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Þar má nefna sem dæmi Jöklarannsóknafélag Íslands, Rauða kross Íslands, KSÍ og Landsbjörg. Loks er þess getið a vikulega sér GJ travel um akstur eldri borgara um höfuðborgarsvæðið til verslana Bónuss.