Fara í efni

Gjaldeyristekjur vegna neyslu erlendra ferðamanna

KaffiParis
KaffiParis

Nú liggja fyrir tölur frá Seðlabankanum um gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum fyrstu 6 mánuði ársins. Tekjurnar voru alls 14.874 milljónir króna á móti 13.896 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Aukningin á milli ára er því um 1 milljarður í krónum talið.

Fargjaldatekjur á fyrri helmingi þessa árs voru 5.479 milljónir króna á móti 5.454 milljónum króna á sama tíma í fyrra en kaup ferðamanna á vörum og þjónustu í landinu voru 9.395 milljónir króna nú á móti 8.442 milljónum króna fyrstu 6 mánuði síðasta árs. Aukningin miðað við árið 2003 er því um 1 milljarður króna og er hún eins og tölurnar sýna nær öll til komin vegna neyslu ferðamanna í landinu á sama tíma og fargjaldatekjur standa nær í stað.

"Þetta ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart þar sem flugfargjöld í heiminum hafa farið almennt lækkandi og einnig fargjöld til Íslands. Það er aftur á móti mjög ánægjulegt að sjá erlendir gestir eru að kaupa hér vörur og þjónustu fyrir um 1 milljarði meira en árið áður. Á þessum sama tíma fjölgaði erlendum gestum um 15% og eyðsla þeirra eykst um 11,3% sem hlýtur að teljast verulega gott þar sem þróunin í öllum ferðalögum er sú að ferðum fjölgar en ferðir styttast, sem leiðir til styttri dvalar og þar með minni eyðslu hvers gests á dvalarstað," segir Magnús Oddsson ferðamálstjóri.

Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson