Fara í efni

Góð þátttaka á "Experience Iceland"

experienceiceland
experienceiceland

Á morgun hefst í Reykjavík námsstefna sem ber nafnið "Experience Iceland -incentive & convention seminar". Markmiðið er að kynna hvað Ísland hefur að bjóða sem áfangastaður fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Þetta er í annað skiptið sem Experience Iceland er haldin en að viðburðinum standa Ráðstefnuskrifstofa Íslands og Icelandair.

Til stefnunnar er boðið vænlegum kaupendum víða að og voru viðbrögðin mjög góð því skráðir kaupendur eru um 70 talsins frá 10 löndum. "Upplifun og reynsla er það sem við höfum að leiðarljósi við skipulagningu Experience Iceland enda teljum við að Ísland hafi mjög margt að bjóða fyrir þennan hóp kaupenda. Við erum "öðruvísi" og höfum ákveðinn ferskleika sem menn eru einmitt að sækjast eftir þegar ráðstefnur og hvataferðir eru annars vegar," segir Rósbjörg Jónsdóttir hjá Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Dagskráin er blanda af ævintýraferðum, dekri í mat og drykk og stuttum fundum þar sem aðildarfélögum Ráðstefnuskrifstofu Íslands gefst kostur á að kynna fyrir væntanlegum kaupendum hvað fyrirtæki þeirra hefur uppá að bjóða. Formlegri dagskrá lýkur síðan á fimmtudagskvöld.

Heimasíða Ráðstefnuskrifstofu Íslands