Gott ár fyrir íslenskra ferðaþjónustu
Íslensk ferðaþjónusta má vel við una eftir árið 2009. Þrátt fyrir hnattræna kreppu og versnandi afkomu ferðaþjónustunnar í Evrópu, óx umfang íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári.
Fjölgun frá helstu mörkuðum - fleiri með skemmtiferðaskipum
Þennan vöxt má ekki síst rekja til þess að erlendum ferðamönnum fjölgaði frá mörgum helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu skv. talningum Ferðamálastofu á brottförum um Leifsstöð.
Heildarfjöldi gesta að meðtöldum farþegum skemmtiferðaskipa var árið 2009 0,7% meiri en árið 2008, eða 566 þúsund miðað við 562 þúsund og því má gera ráð fyrir að um sé að ræða stærsta ferðamannaárið á Íslandi frá upphafi. Langflestir erlendra gesta, eða 94%, fóru um Keflavíkurflugvöll, 2,8% um Reykjavíkurflugvöll, 2,8% með Norrænu um Seyðisfjörð og 0,3% um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Skiptinguna má sjá í töflunni hér fyrir neðan. Farþegar til Íslands með skemmtiferðaskipum voru tæplega 72 þúsund á árinu 2009, 16% fleiri en árinu áður.
Brottfarartalningar á Keflavíkurflugvelli
Ferðamálastofa hefur um árabil staðið fyrir brottfarartalningum á Keflavíkurflugvelli eftir helstu þjóðernum. Samkvæmt þeim fóru 464.500 erlendir gestir frá landinu um flugvöllinn á árinu 2009, sem er fækkun um 8.000 gesti eða 1,7% frá árinu áður.
Mikil fjölgun var frá Mið- og Suður Evrópu á árinu 2009 í samanburði við fyrra ár, Spánverjum fjölgaði um 32%, Ítölum um 25%, Svisslendingum um 21%, Þjóðverjum um 15% og Frökkum um 10%. Norður Ameríkönum fjölgaði um tæp 8% en fjöldi Norðurlandabúa stóð í stað. Bretum fækkaði hins vegar um 12%, Pólverjum um 41% og gestum frá öðrum svæðum um 15%.
Allar brottfarir erlendra gesta um Leifsstöð eru inni í þessum talningum, þ.m.t. brottfarir erlends vinnuafls. Þar sem ekki er eftirlit með vinnuafli frá evrópska efnahagssvæðinu er erfitt að meta hlutfall þess í tölum en gera má ráð fyrir að erlent vinnuafl hafi vegið töluvert þyngra árið 2008.
254.500 Íslendingar fóru utan á árinu 2009 en á árinu 2008 fóru 406.600 Íslendingar utan. Fækkunin nemur 37% milli ára.
Jákvæður samanburður við önnur lönd
Heimskreppan hefur haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu um allan heim, ekki síst í Evrópu en þar hafa flest lönd verið að sjá stöðnun eða samdrátt. Flest Evrópuríki sáu hins vegar mikinn vöxt í ferðum heimamanna innanlands sem vann upp tapið í ferðaþjónustunni. Efnahagsástandið í heiminum hefur hins vegar ekki komið illa niður á íslenskri ferðaþjónustu og er landið í hópi örfárra Evrópulanda þar sem ekki hefur orðið veruleg fækkun í komum erlendra gesta og fjölda erlendra gistinátta. N-Ameríkönum fjölgaði t.a.m. um tæp átta prósent á meðan bandarískum ferðamönnum til Evrópu fækkaði um 4% og Ísland er í hópi þeirra landa sem hafa séð hvað mesta aukningu frá Mið- og S- Evrópu. Auk þess bendir allt til að þetta hafi verið metár í ferðalögum Íslendinga innanlands.
Óstöðugt efnahagsástand á heimsvísu gerir það hins vegar að verkum að erfitt er að spá fyrir um framtíðina, segir Ólöf Ýrr. "Þannig gera flestar nágrannaþjóðir okkar Íslendinga ráð fyrir hægfara vexti í ferðaþjónustu á árinu 2010 og einungis lítilsháttar fjölgun erlendra gesta. Hérlendis má þó gera ráð fyrir talsverðri aukningu erlendra gesta vegna aukins sætaframboðs til landsins frá okkar helstu mörkuðum auk þess sem ætla má að ferðaþjónusta njóti áfram góðs af hagstæðu gengi íslensku krónunnar. Það má því gera ráð fyrir góðu ferðaári 2010."
Breyting milli ára |
||||
2008 | 2009 |
Fjöldi |
(%) |
|
Leifsstöð | 472.700 | 464.536 | -8.164 | -1,7 |
Seyðisfjörður | 14.500 | 13.866 | -634 | -4,4 |
Reykjavíkurflugvöllur | 12.100 | 13.823 | 1.723 | 14,2 |
Akureyrarflugvöllur | 2.000 | 1.570 | -430 | -21,5 |
Egilsstaðaflugvöllur | 1.000 | 146 | -854 | -85,4 |
Samtals |
502.300 |
493.941 |
-8.359 |
-1,7 |
Heildarfjöldi 2008 og 2009 - samanburður (Excel)
Undir liðnum Talnaefni/Fjöldi ferðamanna hér á vefnum er einnig að finna ýmsar tölfræðiupplýsingar þesu tengdar.